Fara í efni
KA

KA tekur á móti Keflavík í Bestu deildinni í dag

Þrír á skotskóm! Ásgeir Sigurgeirsson fagnar marki sínu gegn ÍBV um síðustu helgi ásamt varnarmanninum Dusan Brkovic, sem gerði tvö mörk í bikarleiknum gegn Uppsveitum. Til vinstri er Þorri Mar Þórisson sem hefur skorað í báðum deildarleikjunum í vor. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA fær lið Keflavíkur í heimsókn í dag þegar þriðja umferð Bestu deildarinnar, efstu deildar Íslandsmóts karla í knattspyrnu, hefst með þremur leikjum. Hinir tveir leikir KA í deildinni voru einnig á heimavelli. Leikurinn í dag hefst klukkan 16.00. Þeim sem ekki komast á völlinn skal bent á að viðureignin verður í beinni útsendingu á Stöð2 Sport.

KA og Valur gerðu 1:1 jafntefli í fyrstu umferðinni og KA vann svo ÍBV örugglega 3:0 um síðustu helgi. Sá leikur átti upphaflega að vera í Eyjum en þar sem grasvöllurinn þar var ekki tilbúinn komu liðin og KSÍ sér saman um að leika á iðagrænu gervigrasinu sunnan við KA-heimilið; Greifavellinum öðrum eins og Akureyri.net kýs að kalla hann – með sagnfræðinga og grúskara framtíðarinnar í huga. Greifavöllurinn fyrsti var gamli, góði Akureyrarvöllurinn og þegar framtíðar keppnisvöllur KA vestan við íþróttahúsið verður að veruleika verður þar kemur Greifavöllurinn þriðji!

Keflvíkingar unnu nýliða Fylkis 2:1 á útivelli í fyrstu umferð Bestu deildarinnar en töpuðu 2:0 fyrir KR á heimavelli um síðustu helgi. Þeir unnu Akurnesinga 1:0 í bikarkeppninni í miðri viku eftir framlengingu en KA-menn burstuðu þá lið Uppsveita (Árnessýslu) 5:0 í þægilegum leik á heimavelli.

KA er í 2 til 5. sæti deildarinnar eftir tvær umferðir með fjögur stig ásamt KR, HK og FH en Víkingar eru efstir með fullt hús, sex stig. Keflvíkingar eru jafnir Valsmönnum í 7. og 8. sæti með þrjú stig.