Fara í efni
KA

KA tekur á móti ÍA í Bestu deildinni

Síðasti deildarleikur KA og ÍA. Nökkvi Þeyr Þórisson fagnar fyrra marki sínu í 3:0 sigri KA á ÍA í ágúst 2022, sæll og glaður, en gleði boltastrákanna á þessu augnabliki virðist ennþá meiri! Nökkvi var seldur til Belgíu síðar þetta sumar. Mynd: Skapti Hallgrímsson

KA-menn fá Akurnesinga í heimsókn í dag í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Fyrir leikinn eru nýliðar ÍA með 10 stig eftir átta leiki en KA-menn eru í næst neðsta sæti með aðeins fimm stig – af 24 mögulegum – að átta leikjum loknum.

Liðin mættust síðast á Íslandsmótinu í ágúst árið 2022 og þá sigruðu KA-menn 3:0 á heimavelli. Nökkvi Þeyr Þórisson, sem varð markakóngur og kjörinn besti leikmaður mótsins um haustið, gerði tvö mörk í leiknum og Hallgrímur Mar Steingrímsson það þriðja. Akurnesingurinn Hlynur Sævar Jónsson var rekinn af velli á 36. mínútu fyrir að brjóta á Hallgrími sem var að sleppa í gegn um vörn ÍA.

Uppskera KA-strákanna er langt undir væntingum í sumar, þeir hafa aðeins unnið einn leik, gert tvö jafntefli og tapað fimm. Þeir hafa gert níu mörk en fengið á sig 20.

Þrátt fyrir allt verður gleðin við völd í KA-heimilinu og á Greifavellinum í dag, eins og það er orðað á vef KA. Klukkan 14.00 verður fundarsalurinn opnaður, þar verða píluspjöld „og tilboð á drykkjum fyrir þá sem mæta í gulu! Haddi, Elmar eða Steini mæta og fara yfir það helsta fyrir leikinn með stuðningsmönnum.“

Þar segir einnig: „Klukkan 15:00 verða grillin orðin heit og við færum skemmtunina út! Grill-landsliðið grillar borgara ofan í liðið og hægt verður að keppa í hinum stórskemmtilega Cornhole. Tónlist verður í fanzone-inu og hægt að gera sér glaðan dag, bæði ungir og aldnir. Veðurspáin er með besta móti!“

Flautað verður til leiks klukkan 16.00.