Fara í efni
KA

KA tekur á móti HK í Bestu deildinni í dag

Sveinn Margeir Hauksson, til hægri, og Pætur Petersen fagna fyrra marki Sveins í Evrópuleiknum gegn Dundalk í vikunni. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA tekur á móti HK í dag í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Leikurinn á Greifavellinum sunnan við KA-heimilið hefst kl. 16.00.

KA-menn standa í ströngu þessa dagana. Á rúmlega hálfum mánuði hafa þeir unnið Connah's Quay Nomads frá Wales í tvígang í Sambandsdeild Evrópu, Keflavík í Bestu deildinni og írska liðið Dundalk í Sambandsdeild Evrópu. Sá leikur var á fimmtudaginn, HK er andstæðingurinn í dag sem fyrr segir og á fimmtudaginn etja KA-menn kappi við Dundalk á Írlandi.

KA er í sjöunda sæti Bestu deildarinnar með 20 stig að loknum 15 leikjum en HK sæti neðar, hefur 19 stig úr 16 leikjum. KA er aðeins einu stigi á eftir FH sem er í sjötta sæti, því síðasta sem veitir keppnisrétt í aukakeppni efstu liðanna þar sem úrslit í deildinni ráðast. Sjö leikir eru eftir, einn þeirra er gegn FH í Hafnarfirði.

KA vann fyrri leikinn við HK 2:1 í Kórnum í byrjun maí þar sem fyrirliðinn, Ásgeir Sigurgeirsson, gerði bæði mörkin. 

Þetta eru leikirnir sem KA á eftir þangað til Bestu deildinni verður skipt í tvennt:

  • KA - HK
  • FH - KA
  • Valur - KA
  • KA - Breiðablik
  • Fram - KA
  • KA - Stjarnan
  • Fylkir - KA