Fara í efni
KA

KA tapar enn og er í verulegum vandræðum

Árni Marinó Einarsson markvörður Skagamanna með boltann í dag. Hann byrjaði ekki vel en var öryggið uppmálað eftir það þótt hann þyrfti reyndar í raun aldrei að taka á honum stóra sínum. Mynd: Skapti Hallgrímsson

KA tapaði 3:2 fyrir ÍA á heimavelli í dag í efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu, Bestu deildinni. Enn eru KA-menn því í mótvindi – býsna sterkum mótvindi.

Ekki eru nema fimm stig komin í KA-sarpinn að níu leikjum loknum. KA hefur aðeins unnið einn leik, gert tvö jafntefli en tapað sex. Eini sigurinn var gegn botnliði Fylkis á heimavelli. Árangurinn er því sannarlega langt undir væntingum og ástæða til þess að KA-menn hafi verulegar áhyggjur af stöðunni.

KA-strákarnir byrjuðu betur, héldu boltanum vel og náðu forystu á 14. mínútu þegar Bjarni Aðalsteinsson skoraði. En skjótt skipast veður í lofti.

  • 1:0 – Skagamenn reyndu að spila boltanum út úr vörninni, Rodri komst inn í sendinguna, Sveinn Margeir fékk boltann og renndi á Bjarna Aðalsteinsson sem þrumaði að marki utarlega úr teignum hægra megin. Boltinn fór beint á markvörðinn en endaði þó í netinu. Ekki góð byrjun Árna Marinós Einarssonar, sem var reyndar öryggið uppmálað í marki Skagamanna það sem eftir lifði leiks.

Ívar Örn Árnason, lengst til hægri, horfir á eftir boltanum í netið þegar hann jafnaði 2:2. Daníel Hafsteinsson tók hornspyrnu og Ívar skallaði boltann laglega í fjærhornið. Mynd: Þórir Tryggvason

  • 1:1 – Skagamenn höfðu varla komist fram fyrir miðju þetta fyrsta korter, en ekki leið nema hálf önnur mínúta frá því KA komst yfir þar til gestirnir höfðu jafnað, eftir ótrúleg mistök bakvarðarins þrautreynda, Hrannars Björns Steingrímssonar. Þegar löng sending kom fram völlinn virtist hann ætla að skalla boltann aftur til Steinþórs markvarðar, sem var reyndar mjög slæm hugmynd því hann var allt of langt frá markinu. Boltinn fór beint á Hinrik Harðarson framherja ÍA sem komst á auðan sjó, lék inn í teig og hamraði boltann í markið. Alvöru framherjar afþakka ekki slíkar gjafir.
  • 1:2 – Akurnesingar komust yfir strax á 21. mín., aftur eftir vandræðagang í vörn KA-manna. Eftir fyrirgjöf tókst þeim ekki að koma boltanum nægilega vel frá hættusvæðinu og Ingi Þór Sigurðsson skoraði með stórglæsilegu skoti rétt utan vítateigs; boltinn sveif upp í markvinkilinn vinstra megin, algjörlega óverjandi fyrir Steinþór Má markvörð.

Arnór Smárason skorar úr víti undir lok fyrri hálfleiks, þriðja mark ÍA og síðasta mark leiksins. Mynd: Skapti Hallgrímsson

KA-menn kröfðust þess að fá vítaspyrnu þegar hálftími var liðinn. Ekki var annað að sjá en varnarmaður sparkaði í Birgi Baldvinsson innan vítateigs en dómarinn var ekki á sama máli. Sannarlega súrt fyrir heimamenn, ef um brot var að ræða.

  • 2:2 – Daníel Hafsteinsson tók hornspyrnu frá hægri, Ívar Örn Árnason skaust fram fyrir varnarmenn á markteignum og skallaði boltann laglega í fjærhornið. Þetta var á 37. mínútu. 
  • 2:3 – Rétt fyrir lok fyrri hálfleiks kom fimmta og síðasta mark leiksins. Þá úrskurðaði dómarinn á þann veg að KA-maðurinn Hans Viktor Guðmundsson hefði brotið á Erik Tobias Sandberg; þeir rákust í það minnsta saman, og dómarin benti á vítapunktinn. Arnór Smárason tók vítaspyrnuna og skoraði af miklu öryggi.

Viðar Örn Kjartansson að komast í færi í leiknum í dag en markvörður ÍA, Árni Marinó Einarsson, var fljótur að átta sig, kom út á móti og var á undan KA-manninum í boltann. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Þrátt fyrir fimm mörk var fyrri hálfleikurinn ekki sérlega merkilegur; hugsanlega einn tilþrifaminnsti fimm marka hálfleikur sem boðið hefur verið upp á.

KA-menn hefðu getað skorað í seinni hálfleik; þeir áttu hreinlega að skora undir lokin því þá fengu þeir tvö dauðafæri, en því er ekki að leyna að Skagamenn voru líka klaufar að skora ekki.

Þegar upp er staðið er ekki hægt að horfa framhjá því að KA-menn leika ekki vel um þessar mundir og vitaskuld er slæmt að tapa á heimavelli gegn miðlungs góðu Skagaliði.

Varnarleikur KA hefur alls ekki verið viðunandi, liðið hefur fengið á sig 23 mörk, fleiri en nokkurt annað lið – rúmlega 2,5 í leik að meðaltali. Það kann ekki góðri lukku að stýra en einnig verður að nefna að leikmenn virðast ekki vel stemmdir, þeir virka óöruggir þegar á móti blæs og ekki er hægt að segja að hugmyndauðgi einkenni sóknarleikinn.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna

Smellið hér til að sjá stöðuna í deildinni