Fara í efni
KA

KA tapaði – örlögin ráðast á mánudag

Sigurinn gulltryggður! Þorsteinn Gauti Hjálmarsson gerir síðasta mark Fram úr víti án þess að Nicholas Satchwell fái rönd við reist. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA-menn töpuðu 28:26 fyrir Frömurum á heimavelli í kvöld í næst síðustu umferð Olís deildarinnar í handbolta, efstu deild Íslandsmótsins. KA er því enn í fallhættu fyrir síðustu umferðina sem leikin verður á mánudaginn, annan í páskum.

ÍR tapaði líka í kvöld, fyrir FH, þannig að staðan er óbreytt í fallbaráttunni. Hörður er lang neðstur og fallinn en KA er einu stigi fyrir ofan ÍR, sem er í næst neðsta sætinu. Tvö lið falla.

KA sækir Gróttu heim á Seltjarnarnes en ÍR-ingar leika gegn Frömurum á útivelli í Úlfarsárdalnum. Leikirnir hefjast kl. 16.00 annan í páskum.

Verði KA og ÍR jöfn að stigum standa KA-menn betur að vígi og ÍR fellur. Liðin mættust tvisvar í deildinni í vetur og unnu hvort sinn leik en KA er með mun betri markatölu úr innbyrðis leikjunum.

Þar sem einu stigi munar nú nægir KA jafntefli gegn Gróttu þótt svo færi að ÍR ynni Fram. 

Jónatan Magnússon þjálfari KA var eðlilega þungt hugsi eftir leikinn í kvöld. Hann stjórnar KA-strákunum í síðasta sinn gegn Gróttu á mánudaginn, þar sem örlög liðsins ráðast. Jónatan tekur við þjálfun sænska liðsins Skövde í sumar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA-menn byrjuðu miklu betur í leiknum í kvöld og voru komnir fimm mörkum yfir, 8:3, skömmu áður en fyrri hálfleikur var hálfnaður. Vörn liðsins var frábær, Satchwell var í stuði í markinu og Framarar komust hvorki lönd né strönd. Gestirnir náðu hins vegar að snúa blaðinu við seinni hluta hálfleiksins, minnkuðu muninn jafnt og þétt og KA var aðeins einu marki yfir í hálfleik, 14:13.

Fyrri hluta seinni hálfleiks var rimman í járnum. Eftir fimm mínútur komust Framarar yfir (17:16) í fyrsta skipti síðan í stöðunni 2:1 og allt var hnífjafnt þar til um 10 mínútur voru eftir að gestirnir náðu hægt og bítandi að slíta sig frá KA-strákunum. Komust þremur mörkum yfir, 26:23, þegar rúmar fjórar mínútur voru eftir og heimamenn komust ekki nær en tvö mörk.

Mörk KA: Einar Rafn Eiðsson 7 (3 víti), Dagur Gautason 6, Skarphéðinn Ívar Einarssson 5, Gauti Gunnarsson 3, Einar Birgir Stefánsson 2, Ólafur Gústafsson 2, Allan Norðberg 1.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna

Dagur Gautason gerir síðasta mark KA í leiknum af miklu harðfylgi, eftir að hann „stal“ boltanum af Frömurum. Markið gaf KA-mönnum veika von en hún stóð ekki lengi. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson