Fara í efni
KA

KA tapaði fyrir Val og fór niður í 5. sæti

Árni Bragi Eyjólfsson var í hefðbundnu hlutverki markakóngs hjá KA í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

KA tapaði fyrir Val í Olís deildinni í handbolta síðdegis í Valsheimilinu, 31:27. Úrslit annarra leikja gerðu það að verkum að KA-menn færast neðar á töflunni – eru nú í 5. sæti, með jafn mörg stig og Selfoss og ÍBV.

Báðir leikir KA og Selfoss fóru 24:24 í vetur en markatala KA er betri, og KA-menn hafa betri stöðu gagnvart Eyjamönnum; unnu báðar viðureignir liðanna í vetur. Baráttan um miðbik deildarinnar er hnífjöfn og taflan gæti enn breyst eftir lokaumferðina á fimmtudaginn.

Lið KA byrjaði afleitlega í dag, Valsarar komust í 4:0 og höfðu fimm marka forystu eftir kortér, 8:3, en KA-strákarnir bitu í skjaldarrendur og voru bara tveimur mörkum undir í hálfleik, 17:15. KA minnkaði muninn niður í eitt mark fljótlega í seinni hálfleik en þá spýttu heimamenn í lófana, náðu nokkurra marka forystu og eftir það var sigurinn í raun aldrei í hættu.

Árni Bragi Eyjólfsson var markahæstur KA-manna í dag að vanda; gerði 11 mörk, þar af fjögur úr víti. Sigþór Gunnar Jónsson og Jón Heiðar Sigurðsson gerðu 4 mörk hvor. Nicholas Satchwell varði 18 skot.

Smelltu hér til að skoða alla tölfræði úr leiknum.