Fara í efni
KA

KA tapaði fyrir Fram og er í snúinni stöðu

Hallgrímur Mar Steingrímsson skorar úr víti gegn Fram í fyrri leik liðanna í sumar. Hann endurtók leikinn í dag og litlu munaði að Hallgrímur skoraði öðru sinni en markvörður Fram kom í veg fyrir það með frábærri markvörslu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA-menn urðu að bíta í það súra epli í dag að tapa 2:1 fyrir Fram í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Liðin mættust á Framvellinum í Úlfarsárdal þar sem Aron Jóhannsson gerði sigurmarkið í blálokin eftir að KA-menn höfðu sótt af miklum móð til að knýja fram sigur.

KA hefur nú 22 stig að loknum 19 leikjum og þarf mjög líklega að vinna alla þrjá leikina sem eftir eru til að ná sæti í framhaldskeppni sex efstu liða deildarinnar. Að loknum 22 leikjum halda sex efstu áfram baráttu um Íslandsmeistaratitil og Evrópusæti og sex þau neðri mætast einnig í einfaldri umferð, þar sem tvö neðstu falla þegar upp er staðið.

Þetta eru leikirnir sem KA á eftir áður en deildinni verður skipt upp:

  • KA - Stjarnan – laugardag 26. ágúst 16.00
  • FH - KA – miðvikudag 30. ágúst 17.30
  • Fylkir - KA – sunnudag 3. september 14.00

KA-strákarnir náðu sér ekki á strik í fyrri hálfleiknum í dag og 1:0 forystu Fram var sanngjörn þegar flautað var til leikhlé. Það var Brasilíumaðurinn Fred sem skoraði á 23. mín. með glæsilegu skoti. Ekki munaði miklu að Thiago bætti við marki fyrir Fram í fyrri hálfleiknum en það var svo reyndar KA-maðurinn Hallgrímur Mar Steingrímsson sem fékk besta færi hálfleiksins í uppbótartíma; Hallgrímur var í dauðafæri en Ólafur Framari varði meistaralega frá honum.

Allt annað var að sjá til KA-manna í seinni hálfleik, sérstaklega síðasta hálftímann.

Hallgrímur Mar jafnaði úr vítaspyrnu á 64. mín. Vítið var dæmt eftir að brotið var á honum og aðeins fáeinum mínútum síðar vildu KA-menn fá annað víti þegar Elfar Árni Aðalsteinsson féll í teignum en Pétur dómari Guðmundsson var ekki á sama máli.

Rétt áður en flautað var til leiksloka var Daníel Hafsteinsson rekinn útaf og verður því í banni í næsta leik. KA-maðurinn fékk gult spjald í fyrri hálfleik fyrir að rífa einn Framarann niður og í lokin átti Daníel eitthvað vantalað við Pétur dómara sem var greinilega ekki hrifinn af þeirri kveðju og lyfti gula spjaldinu öðru sinni. Þar með fór það rauða á loft og Daníel af velli.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna