Fara í efni
KA

KA-strákarnir úr leik, stelpurnar mæta Þrótti

KA tapaði 3:1 fyrir Vestra frá Ísafirði í dag í undanúrslitum bikarkeppni karla í blaki.

Bikarhelgin fer fram í íþróttahúsinu Digranesi í Kópavogi. Undanúrslit kvenna verða á morgun þar sem KA-stelpurnar mæta Þrótti úr Fjarðabyggð, og úrslitaleikirnir fara fram á laugardag.

KA-menn, sem léku til úrslita í bikarkeppninni í fyrra, fögnuðu sigri í fyrstu hrinunni í dag. Hrinan var æsispennandi en KA vann með minnsta mun, 26:24.

Vestri var aftur á móti mun betri í annarri hrinu og sigraði mjög örugglega, 25:15.

Þriðja hrinan var ótrúleg. KA-menn voru miklu betri lengi vel og komust í 13:7 en viðsnúningurinn var með ólíkindum. Vestramenn náðu að jafna 18:18, KA-strákarnir tóku þá góðan kipp og komust í 24:22, en Vestri jafnaði 25:25. Því þurfti upphækkun, sem svo er kölluð; þótt lið náði 25 stigum fást ekki fram úrslit í hrinu nema muni tveimur stigum. Vestri gerði tvö síðustu stigin og vann 27:25.

Í fjórðu hrinu byrjaði KA aftur bet­ur en Vestri náði svo yfirhöndinni og komst í 19:15 en KA jafnaði 20:20. Spennan var mikil en leikmenn Vestra fögnuðu sigri í hrinunni, 25:23 – og þar með 3:1 í leiknum.

Í seinni leik undanúrslitanna sigruðu ríkj­andi Íslands- og bikar­meist­ar­ar Ham­ars lið Aftureldingar 3:0. Það verða því Hamar og Vestri sem mætast í úrslitaleiknum á laugardaginn.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna frá viðureign KA og Vestra.

Hægt er að horfa á upptöku RÚV frá leik KA og Vestra með því að smella hér