Fara í efni
KA

KA-strákarnir tómhentir heim af Valsvellinum

KA-maðurinn Steinþór Már Auðunsson ver vítaspyrnu Gylfa Þórs Sigurðssonar rétt fyrir lok fyrri hálfleiks. Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

KA tapaði 3:1 fyrir Val í gær Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu karla. Leikið var Valsvellinum að Hlíðarenda, N1 vellinum. KA-strákarnir eru því enn með aðeins tvö stig í deildinni, næst neðstir, að sex leikjum loknum.

Sigur Valsmanna var sanngjarn en KA-menn áttu þó góða kafla í leiknum en hvorki nógu marga né langa til að ógna sigri heimamanna verulega. Miðað við gang mála í sumum leikjanna sem eru að baki, og alls kyns nýmóðins tölfræði um væntingar miðað við færi og slíkt, ætti KA að vera ofar í töflunni. Svo er hins vegar ekki og það er áhyggjuefni.

KA-menn byrjuðu afleitlega, eins og í síðustu umferð gegn KR. Þá komust KR-ingar í 1:0 strax á þriðju mínútu en nú gerðu Valsmenn fyrsta markið fjórðu mínútu. Það getur verið fallegt að færa afmælisbarni gjafir en var óþarfi í gær; haldið var upp á 113 ára afmæli Knattspyrnufélagsins Val, en gjöf hefði mátt bíða þar til eftir leikinn. KA-strákarnir verða að koma ákveðnari og betur stemmdir í baráttu gegn jafn góðu liði og Val, ekki síður en gegn KR í síðustu umferð.

Markið var þannig að Gylfi Sigurðsson tók hornspyrnu, Hólmar Örn Eyjólfsson hoppaði hæst allra í teignum og skallaði í netið. Vafi virðist reyndar leika á því hvort boltinn fór af einhverjum öðrum í markið en á leikskýrslu er markið altjent skráð á Hólmar Örn.

Valsmenn voru mun betri fyrsta hálftímann eða um það bil, en þá hresstust KA-menn verulega og þegar fjórar mínútur voru eftir af fyrri hálfleik fengu þeir vítaspyrnu. Patrick Pedersen og Sveinn Margeir Hauksson börðust um boltann í teignum, Helgi Mikael Jónasson dómari var rétt hjá þeim, blés umsvifalaust í flautu sína og benti á vítapunktinn; úrskurður hans var sá að Daninn hefði sparkað í Dalvíkinginn.

Hallgrímur Mar Steingrímsson, sem veiktist hastarlega skömmu fyrir mót, var í fyrsta sinn í byrjunarliði KA í sumar og tók vítaspyrnuna. Hann skoraði af miklu öryggi; þrumaði boltanum neðst í hægri hornið, alveg út við stöng, en Frederik Schram, sem er þekktur vítabani, henti sér í hina áttina. Öruggara gerist það ekki.

Stuðningsmenn KA, sem voru fjölmennir og fjörugir í stúkunni, hresstust mjög við markið en brúnin þyngdist innan við mínútu eftir jöfnunarmarkið. Hrannar Björn Steingrímsson braut þá klaufalega á Aroni Jóhannssyni og Helgi Mikael, sem aftur var nærstaddur, var ekki í vafa.

Fram steig vítaskytta íslenska landsliðsins til margra ára, Gylfi Sigurðsson, en Steinþór Már Auðunsson gerði sér lítið fyrir og varði spyrnu hans. Steinþór varði einnig víti gegn KR í síðustu umferð; skutlaði sér í sama horn í þetta skipti og varslan því nánast eins. Spyrna Gylfa var reyndar ótrúlega slök en Steinþór las hann eins og opna bók og á mikið hrós skilið.

Ekki voru liðnar nema 10 mínútur af seinni hálfleik þegar Valsmenn komust yfir á ný. Gylfi þrumaði í stöng með skoti utan teigs, Lúkas Logi Heimisson náði boltanum vinstra megin í teignum, sendi fyrir markið og Patrick Pedersen skallaði í markið. Daninn er baneitraður í vítateignum og sé hans ekki gætt vel er allt mikil hætta á ferðum. Það kom KA-mönnum aftur í koll tæpum 10 mín. síðar að hafa ekki nógu góðar gætur á Dananum; eftir fyrirgjöf Jónatans Inga Jónssonar renndi Pedersen sér á boltann – grimmastur allra – og skoraði.

KA-menn lögðu ekki árar í bát og fengu tvö prýðis tækifæri það sem eftir lifði leiks en náðu ekki að nýta þau. 

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna