Fara í efni
KA

KA-stelpurnar unnu og fengu deildarbikarinn

KA-stelpurnar og þjálfari þeirra, Miguel Mateo Castrillo, fagna sigrinum í dag. Ljósmynd: Þórir Tryggvason.

KA sigraði HK 3:0 með sannfærandi hætti í dag í síðasta leik deildarkeppninar í blaki kvenna í KA-heimilinu og fékk deildarbikarinn afhentan eftir leik.

KA-stelpurnar voru öruggar með sigur í deildinni fyrir leikinn í dag þar sem Afturelding tapaði 3:1 á heimavelli fyrir liði Álftaness í vikunni.

  • Hrinurnar: 25:18 – 25:17 – 25:19

KA varð bikarmeistari kvenna á dögunum, nú er deildarmeistaratitillinn í höfn og úrslitakeppnin um Íslandsmeistaratitilinn hefst senn. Þar mæta KA-stelpurnar liðið Þróttar úr Fjarðabyggð í undanúrslitum og Afturelding og Álftanes eigast við.

Vinna þarf tvo leiki í undanúrslitunum til þess að komast í úrslit. KA og Þróttur mætast fyrst í KA-heimilinu næstkomandi fimmtudag 14. apríl – á skírdag, síðan fyrir austan þriðjudaginn 19. apríl og ef liðin þurfa að eigast við þriðja sinni verður sú viðureign í KA-heimilinu 21. apríl.

  • Fyrr í dag vann karlalið KA sigur á HK, 3:2, í KA-heimilinu eftir að hafa lent 2:1 undir. Það dugir KA-strákunum þó ekki til þess að komast í úrslitakeppnina. Leiktíðinni er lokið hjá þeim.

Gleðin var við völd í KA-heimilinu þegar deildarbikarinn fór á loft í dag. Ljósmynd: Þórir Tryggvason.