Fara í efni
KA

KA sigraði topplið Blika – MYNDIR

Hallgrímur Mar Steingrímsson fagnar sigurmarkinu sem hann gerði úr vítaspyrnu seint í leiknum í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA sigraði Breiðablik 2:1 í hörkuleik á heimavelli í dag í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu eins og fram kom á Akureyri.net fyrr í dag.

KA lendir örugglega ekki neðar en í 3. sæti eftir hina hefðbundnu 22 leikja deildarkeppni og gæti náð 2. sæti. Þrjú efstu liðin fá þrjá heimaleiki í fimm leikja „framlengingunni“ sem tekur við eftir hefðbundna tvöfalda umferð; sex efstu liðin leika þá einfalda umferð innbyrðis, taka stigin með sér og eftir þá hrinu fæst úr því skorið hver verður Íslandsmeistari og hverjir komast í Evrópukeppni.

Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.

_ _ _

RODRI KEMUR KA YFIR
Sveinn Margeir Hauksson tók aukaspyrnu út við hliðarlínu hægra megin á miðjum vallarhelmingi Breiðabliks á 24. mínútu. Föst sending Sveins rataði inn á miðjan vítateig þar sem Rodrigo Gomes Mateo var óvaldaður og skallaði auðveldlega í mark gestanna. 

_ _ _

ARNAR KOMINN AFTUR
Arnar Grétarsson þjálfari KA var kominn aftur á bekkinn eftir fimm leikja bann. Hópur stuðningsmanna Breiðabliks, sem setti skemmtilegan svip á leikinn, mætti með stóran fána með mynd af Arnari og áletruninni KÓNGURINN. Hann er Bliki sem kunnugt er, lék lengi með liðinu og hefur einnig þjálfað það.

_ _ _

ANNAÐ GULT? NEI!
Blikinn Ísak Snær Þorvaldsson fékk gult spjald fyrir brot á Dusan Brkovic eftir 15 mínútna leik. Háværustu stuðningsmenn KA kröfðust þess að dómdarinn sýndi honum gula spjaldið aftur í byrjun seinni hálfleiks þegar hann sótti að Jajalo markverði og rakst í hann. Það var saklaus árekstur og Vilhjálmur dómari fór ekki í vasann, enda engin ástæða til.

_ _ _

VIKTOR JAFNAR FYRIR BLIKA
Viktor Karl Einarsson jafnaði metin fyrir Breiðablik á 59. mín. Hann fékk boltann yst í vítateig KA, komst laglega framhjá tveimur varnarmönnum og þrumaði boltanum í markið, alveg við nærstöngina.

_ _ _

ÍVAR REKST HARKALEGA Á STÖNGINA
Harðjaxlinn Ívar Örn Árnason, fyrirliði KA, lenti harkalega á stöng Blikamarksins eftir liðlega 70 mínútur og lá sárkvalinn í nokkrar mínútur. Þorri Mar sendi boltann fyrir markið utan af hægri kanti, Anton Ari Einarsson greip boltann nokkuð auðveldlega en Ívar Örn kom á fullri ferð þegar hann freistaði þess að ná boltanum en náði ekki að stöðva sig. Halldór Hermann Jónsson, sjúkraþjálfari KA, var fljótur á vettvang og hlúði að fyrirliðanum. Mönnum leist ekki á blikuna en svo fór að Ívar Örn hélt áfram leik. Áður en leikur hófst á ný þurftu starfsmenn KA að laga marknetið sem rifnaði við áreksturinn! Aftur kröfðust stuðningsmenn KA þess að Vilhjálmur Alvar Þórarinsson rifi upp rauða spjaldið og sýndi Viktori Erni Margeirssyni fyrir að ýta Ívari Erni, en innistæða virtist ekki fyrir þeirri kröfu.

_ _ _

SIGURMARKIÐ
Ásgeir Sigurgeirsson fékk boltann í vítateig Breiðabliks þegar vallarklukkan sýndi að 86 mínútur væru liðnar (en sjö mínútum var reyndar bætt við hinar hefðbundnu 90; töfin þegar Ívar Örn rakst á stöngina var svo löng) og Viktor Örn Margeirsson braut á Ásgeiri, þegar framherjinn hugðist leika á hann. Vilhjálmur Alvar – frábær dómari leiksins – var ekki í vafa. Benti strax á vítapunktinn, sem var hárrétt ákvörðun. Það var Hallgrímur Mar Steingrímsson sem fékk það verkefni að taka vítaspyrnuna og skoraði af miklu öryggi.