Fara í efni
KA

KA sækir Aftureldingu heim í Mosfellsbæinn

Einar Rafn Eiðsson í leik gegn Aftureldingu í KA-heimilinu. Hann hefur skorað 7,1 mark að meðaltali í leik í deildinni í vetur - meira en nokkur annar leikmaður. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA sækir Aftureldingu heim í dag í Olís deild karla í handbolta, efstu deild Íslandsmótsins. Heil umferð er á dagskrá í deildinni, sú þriðja síðasta áður en úrslitakeppnin um Íslandsmeistaratitilinn hefst.

Leikur KA og Aftureldingar í Mosfellsbæ hefst klukkan 18.30. KA, sem hefur verið á siglingu undanfarið og unnið þrjá leiki í röð, er í sjöunda sæti deildarinnar með 16 stig en Afturelding í þriðja sæti með 27 stig. Öll lið deildarinnar hafa lokið 19 leikjum.

Átta lið komast í úrslitakeppnina. Stjarnan er einu stigi á eftir KA með 15 stig og síðan kemur Grótta með 13. Tvö þessara þriggja liða komast í úrslitakeppnina og KA-menn standa ágætlega að vígi en eiga reyndir eftir að mæta þremur efstu liðum deildarinnar, FH, Val og Aftureldingu. Tölfræðilega eru KA-strákarnir ekki öruggir um sæti í úrslitakeppninni en það yrði með ólíkindum ef Grótta kæmist upp fyrir KA þar sem Seltirningarnir eiga eftir að leika við efstu liðin tvö, Val og FH.

Yfirgnæfandi líkur eru því á að KA endi í sjöunda eða áttunda sæti og mæti þá annað hvort FH eða Val í átta liða úrslitunum.

Liðin þrjú sem berjast um síðustu tvö sætin í átta liða úrslitum eiga þessa leiki eftir:

Í kvöld

  • Afturelding - KA
  • Fram - Stjarnan
  • Valur - Grótta

Þriðjudaginn 2. apríl

  • KA - Valur
  • Stjarnan - HK
  • Grótta - FH

Föstudaginn 5. apríl

  • FH - KA
  • Selfoss - Grótta
  • Víkingur - Stjarnan

Smellið hér til að sjá stöðuna í deildinni.