KA
KA-penninn hvað eftir annað á loft undanfarið
29.05.2021 kl. 09:48
Patrekur Stefánsson, einn þeirra sem framlengdi samning við KA á dögunum. FH-ingurinn, Einar Rafn Eiðsson, er á meðal þeirra sem ganga til liðs við KA í sumar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.
KA hefur framlengt samning við fimm handboltamenn upp á síðkastið og samið fyrsta sinni við þrjá unga knattspyrnumenn. Hér má sjá þá sem sagt hefur verið frá á heimasíðu KA.
Handboltamenn sem framlengdu nýverið samning við KA eru þessir:
- Patrekur Stefánsson, 25 ára leikstjórnandi sem hefur gert 63 mörk í 22 leikjum í vetur.
- Jón Heiðar Sigurðsson, 30 ára gamall leikstjórnandi sem hefur gert 46 mörk í 23 leikjum í vetur.
- Jóhann Geir Sævarsson, 22 ára gamall vinstri hornamaður sem hefur gert 55 mörk í 23 leikjum í vetur.
- Allan Norðberg, 27 ára gamall hægri hornamaður sem hefur gert 39 mörk í 23 leikjum í vetur. Allan er færeyskur landsliðsmaður.
- Einar Birgir Stefánsson, 24 ára línumaður, sem hefur gert 46 mörk í vetur.
Þá hefur KA samið við þrjá unga og efnilega knattspyrnumenn sem eru að koma upp úr yngri flokkum félagsins:
- Ívar Arnbro Þórhallsson, 15 ára markvörður, samdi til þriggja ára. Á síðasta ári varð hann Íslandsmeistari með 4. flokki.
- Kári Gautason skrifaði undir samning sem gildir út árið 2023. Kári verður 18 ára á árinu.
- Valdimar Logi Sævarsson, einn Íslandsmeistara 4. flokks í fyrra, skrifaði undir fyrsta leikmannasamninginn við KA á 15 ára afmælisdaginn.