Fara í efni
KA

KA og Þór heppin í bikardrættinum

KA-maðurinn Sveinn Margeir Hauksson, til vinstri, ásamt KR-ingnum Kristni Jónssyni í leik liðanna í gær í Bestu deildinni og Þórsarinn Valdimar Daði Sævarsson um það bil að skora gegn KF í 64 liða úrslitum Mjólkurbikarkeppninnar á dögunum. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Akureyrarliðin KA og Þór ættu að eiga greiða leið í 16-liða úrslit bikarkeppninnar í knattspyrnu, Mjólkurbikarkeppninnar, þótt auðvitað sé aldrei hægt að fullyrða neitt eða útiloka ævintýri í þeirri skemmtilegu keppni. Dregið var í 32 liða úrslitunum í dag.

KA fær Uppsveitir í heimsókn, lið sem stofnað var fyrir fáeinum árum í Árnessýslu og leikur í 4. deild, fimmtu efstu deild Íslandsmótsins. Þórsarar fengu hins vegar útileik gegn Kára á Akranesi, liði sem leikur í 3. deild, fjórðu efstu deild Íslandsmótsins.

Vert er að geta þess að Magni frá Grenivík dróst gegn bikarmeisturum Víkings á útvelli og Dalvík/Reynir fékk einnig útileik, mætir Grindvíkingum suður með sjó.

Leikirnir fara fram dagana 19. til 21. apríl. Liðin í Bestu deild koma nú inn í keppnina ásamt þeim 20 félögum sem unnu sína leiki í 2. umferð.

Smellið hér til að sjá allan dráttinn