Fara í efni
KA

KA og Þór á ferðinni fyrir sunnan í dag

Brynjar Ingi Bjarnason - Arnór Þorri Þorsteinsson - Patrekur Stefánsson. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Knattspyrnulið KA og handboltalið bæði Þórs og KA verða í eldlínunni fyrir sunnan í dag þegar Íslandsmótið í báðum greinum heldur áfram.

Leikir dagsins eru þessir:

  • 16.00 Valur – KA, Olís deild Íslandsmótsins í handknattleik – sýndur beint á Stöð 2 Sport

Með sigri gæti KA komist upp í þriðja sæti. Liðið er nú jafnt Selfossi í 3. til 4. sæti en Selfoss mætir liði Hauka í dag. Valur er aðeins einu stigi á eftir KA þannig að ekki síður mikið í húfi fyrir Hlíðarendadrengina í dag því þeir geta endað í efri hluta deildarinnar. Lokaumferð deildarinnar verður svo á fimmtudaginn þegar KA-menn taka á móti Þórsurum. Fyrri leikur KA og Vals er mjög eftirminnilegur en KA-menn knúðu þá fram jafntefli í blálokin.

Akureyri.net sagði eftir þann leik: „Tvær af bestu óskráðu reglum handboltamanna (og mun fleiri auðvitað) eru: Aldrei að gefast upp! og Leikurinn er ekki búinn fyrr en dómarinn flautar af. KA-menn mundu báðar þessar reglur í kvöld, þegar þeir gerðu jafntefli, 27:27, við Valsmenn í Olísdeildinni í KA-heimilinu. Valsmenn virtust aftur á móti búnir að steingleyma síðari reglunni.“

  • 16.00 Stjarnan – Þór, Olís deild Íslandsmótsins í handknattleik – hvergi sýndur, því miður.

Þórsarar eru þegar fallnir úr efstu deild og leika því fyrst og fremst fyrir heiðurinn í dag, en Stjarnan er í mikilli baráttu um að enda í efri hluta deildarinnar. Stjarnan vann fyrri leik liðanna á Akureyri, 27:20.

  • 19.15 Stjarnan – KA, Pepsi Max deild Íslandsmótsins í knattspyrnu – sýndur beint á Stöð 2 Sport

KA-menn byrjuðu Íslandsmótið mjög vel en urðu að sætta sig við 1:0 tap fyrir Víkingum í síðasta leik, á Dalvík á föstudaginn. KA er í þriðja sæti Pepsi Max deildarinnar, efstu deildar Íslandsmótsins, með 10 stig eftir fimm leiki en Stjarnan hefur byrjað afleitlega og er á botninum með aðeins tvö stig eftir fimm leiki. Garðbæingar hafa ekki unnið leik, gert tvö jafntefli og tapað þremur. KA-maðurinn Þorvaldur Örlygsson er þjálfari Stjörnunnar; Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari liðsins til margra ára, fékk Todda í þjálfarateymið fyrir tímabilið en Rúnar yfirgaf síðan skútuna strax eftir fyrstu umferð Íslandsmótsins.