Fara í efni
KA

KA-menn sigruðu ÍBV í gær – MYNDIR

Ingimar Torbjörnsson Stöle lék mjög vel gegn ÍBV í gær. Hér er hann með boltann, Eyjamaðurinn Guðjón Ernir Hrafnkelsson til hægri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA-menn sigruðu Vestmannaeyinga 2:1 í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu, á Greifavellinum sunnan við KA-heimilið í gær. KA er þar með öruggt um efsta sæti í neðri hluta deildarinnar en Eyjamenn eru enn í fallsæti, þegar tveir leikir eru eftir.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna á vef KSÍ
_ _ _

1:0 – JÓAN SÍMUN SKORAR
Þegar 19 mínútur voru liðnar náði KA forystunni. Hallgrímur Mar Steingrímsson sendi boltann inn á vítateig ÍBV, einn varnarmanna hugðist láta hann rúlla aftur fyrir endamörk en Ingimar Torbjörnsson Stöle „stal“ af honum boltanum og sendi inn á markteiginn þar sem Jóan Símun Edmundsson skoraði auðveldlega í opið markið af stuttu færi.


_ _ _

1:1 – LAGLEGT JÖFNUNARMARK
ÍBV fékk aukaspyrnu rétt utan við vítateig KA á 22. mínútu. Jón Ingason skaut að marki; skrúfaði boltann glæsilega framhjá varnarveggnum og í markmannshornið án þess að Steinþór Már kæmi vörnum við.


_ _ _

2:1 – SIGURMARK HALLGRÍMS
KA fékk vítaspyrnu á 54. mínútu þegar Jón Ingason braut klaufalega á Sveini Margeiri Haukssyni. Eyjamaðurinn mótmælti ákvörðun Sigurðar Hjartar dómara en hún var hárrétt. Það var Hallgrímur Mar Steingrímsson sem tók vítaspyrnuna og þrumaði boltanum neðst í vinstra hornið. Guy Smit kastaði sér í rétt horn en hafði ekki erindi sem erfiði; skotið var of fast og hnitmiðað til þess.