Fara í efni
KA

KA og HK skildu jöfn í baráttuleik – MYNDIR

Enginn má við margnum! KA-maðurinn Rodri bíður eftir að boltinn komi fyrir markið þegar KA átti hornspyrnu. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

KA og HK gerðu 1:1 jafntefli í 17. umferð Bestu deildar karla, efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu í dag. Jakob Snær Árnason gerði mark KA í fyrri hálfleik en Ahmad Faqa jafnaði metin fyrir HK í upphafi seinni hálfleiks.

Hallgrímur Jónasson gerði töluverðar breytingar á liðinu frá sigrinum gegn Dundalk á fimmtudaginn var. Tveir nýjustu leikmenn KA, þeir Alex Freyr Elísson og Jóan Símun Edmundsson voru báðir í byrjunarliðinu í fyrsta skipti.

Eftir leikinn er KA liðið áfram í sjöunda sæti deildarinnar með 21 stig, en pakkinn fyrir ofan er þéttur og er aðeins eitt stig sem skilur á milli KA-manna og Stjörnumanna sem eru í fjórða sæti. Næsti leikur KA er gegn Dundalk í Írlandi í annari umferð forkeppni Sambandsdeildar Evrópu. Þar eru KA-menn með 3:1 forystu eftir fyrri leikinn.

_ _ _

TÖLUVERÐAR BREYTINGAR – NÝIR LEIKMENN Í BYRJUNARLIÐINU

KA-menn hafa staðið í ströngu undanfarið en liðið er að keppa á þrennum vígstöðvum, í deild, í Evrópukeppni og í bikarkeppninni. Liðið spilaði við Dundalk í undankeppni Sambandsdeildarinnar á fimmtudaginn var og mætir Dundalk aftur á fimmtudag en þá á Írlandi. Það voru því miklar breytingar á liðinu og lykilmenn hvíldir. Tveir nýjustu leikmenn KA, Alex Freyr Elísson og Jóan Símun Edmundsson voru  báðir í fyrsta skipti í byrjunarliðinu.

_ _ _

MARTRAÐARBYRJUN – RAUTT Á ANNARRI MÍNÚTU

Leikurinn byrjaði vægast sagt skelfilega fyrir heimamenn en á annari mínútu fékk Dusan Brkovic beint rautt spjald. HK-ingar unnu boltann og Örvar Eggertsson náði á frábæran hátt að skalla hann inn í svæði á milli varnar og markmanns þar sem Atli Hrafn Andrason og Dusan fóru í kapphlaup um boltann. Þar hljóp Atli töluvert hraðar en Dusan sem endaði með því að Dusan felldi Atla rétt utan vítateigs. Sigurður Hjörtur Þrastarsson, dómari leiksins sá engan annan kost en að reka Dusan út af. Aukaspyrnan í kjölfarið fór fram hjá markinu.

_ _ _

HK-INGAR ÞREIFA FYRIR SÉR SÓKNARLEGA

Eftir rauða spjaldið féllu KA-menn eðlilega aðeins til baka á meðan liðið var að endurstilla sig. HK-ingar voru meira með boltann og fengu oft á tíðum góðar stöður en það vantaði oft upp á gæðin þegar kom að loka sendingunni eða loka skotinu. Smátt og smátt unnu KA-menn sig inn í leikinn og var á stórum köflum fyrri hálfleiks ekki að sjá að heimamenn væru manni færri.

_ _ _

1:0 – JAKOB SNÆR KEMUR KA-MÖNNUM YFIR

Á 35. mínútu kom fyrsta mark leiksins og það var Jakob Snær Árnason sem kom KA-mönnum yfir. Jóan Edmundsson gerði virkilega vel á miðjum vellinum og með einni sendingu náði hann að koma Andra Fannari Stefánssyni í góða stöðu. Andri kom boltanum fram völlinn og á Jakob Snæ sem var staddur utan við vítateiginn vinstra megin. Hann fíflaði Ahmad Faqa gjörsamlega upp úr skónum við vítateigs línuna, keyrði inn á teiginn og skoraði með föstu uppi í nær hornið.

_ _ _

ÖRVAR MEÐ FÍNT SKOT RÉTT YFIR MARKIÐ

Örvar Eggertsson var hvað líflegastur HK-inga sóknarlega. Hann sýndi góða takta á 39. mínútu sem endaði með því að hann átti skot við vítateigslínuna vinstra megin sem sigldi rétt fram hjá markinu. Staðan var 1:0 heimamönnum í vil þegar Sigurður Hjörtur flautaði til loka fyrri hálfleiks.

_ _ _

1:1 – AHMAD FAQA JAFNAR

Ahmad Faqa jafnaði metin fyrir gestina í upphafi síðari hálfleiks. HK-ingar fengu aukaspyrnu á fínum stað við hægri kantinn eftir að Birkir Valur var felldur. Marciano Aziz tók spyrnuna en hikaði í tilhlaupinu. Það virtist fífla marga í vörn KA því þegar sendingin kom fyrir markið var Ahmad aleinn á markteignum og skallaði boltann í netið.

_ _ _

RÓLEGT STÓRAN PART SEINNI HÁLFLEIKS

Eftir mark HK voru gestirnir meira með boltann en KA-menn voru þéttir til baka og beittu skyndisóknum. Ekki var mikið um opin færi í seinni hálfleik en bæði lið fengu þó tækifæri til að stela sigrinum. Heimamenn náðu að skapa hættur í nokkur skipti eftir hornspyrnur en gestirnir beittu einnig fyrirgjöfum í miklu magni sem náðu á köflum að skapa usla. 

_ _ _

AZIZ KEMUR BOLTANUM YFIR LÍNUNA EN BROT RÉTTILEGA DÆMT

Á 78. mínútu leiksins kom Marciano Aziz boltanum yfir línuna en brot réttilega dæmt. Eftir fyrirgjöf frá vinstri frá Arnþóri Ara lenti Kristijan Jajalo í samstuði við Atla Þór Jónasson sem varð til þess að Jajalo missti boltann og Aziz skoraði. Sigurður Hjörtur var þá réttilega búinn að dæma brot svo markið var ekki talið. Það fór svo að lokum að fleiri lögleg mörk voru ekki skoruð og lokatölur á Greifavellinum 1:1.