Fara í efni
KA

KA og Breiðablik skildu jöfn í Bestu deildinni

Oliver Stefánsson miðvörður Breiðabliks braut á Elfari Árnasyni í dauðafæri seint í fyrri hálfleiknum, dæmt var víti og Blikinn af rekinn af velli. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA og Breiðablik gerðu 1:1 jafntefli í 19. umferð Bestu deildar karla, efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu. Leikurinn fór fram á Greifavellinum (KA-velli) í dag. Daníel Hafsteinsson gerði mark KA úr vítaspyrnu. 

Bæði lið standa í ströngu þessa daganna í Evrópukeppni. KA-menn í Sambandsdeildinni og Breiðablik í Evrópudeildinni. Bæði lið eiga leiki á fimmtudaginn kemur og voru því töluverðar breytingar frá því sem menn myndu kalla hefðbundið byrjunarlið hjá liðunum. Sterkir leikmenn hjá KA eins og Hallgrímur Mar Steingrímsson og Jóan Edmundsson byrjuðu á bekknum.

Jafnræði var með liðunum í upphafi leiks og fengu bæði lið færi til að skora. Það voru gestirnir úr Kópavogi sem voru fyrri til að skora en á 17. mínútu skoraði Klæmint Olsen. Eftir gott spil Blika komst Ágúst Orri Þorsteinsson upp að endamörkum hægra megin í teignum. Þar átti hann sendingu á fjærstöngina þar sem Klæmint var óvaldaður og skoraði með skalla.

Klæmint Olsen (20) nær forystunni fyrir gestina. Færeyingurinn skallaði boltinn í netið eftir fyrirgjöf frá hægri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Eftir mark gestanna voru KA-menn töluvert sterkari aðilinn og þegar komið var fram í uppbótartíma fyrri hálfleiks skilaði spilamennska þeirra árangri. Kristijan Jajalo fékk boltann eftir sókn Blika og átti frábært útspark langt upp völlinn. Oliver Stefánsson miðvörður Breiðabliks misreiknaði boltann illa sem skoppaði inn í teig. Þar komst Elfar Árni í boltann en Oliver tók Elfar niður áður en hann náði skoti að marki. Elías Ingi Árnason átti engan annan kost en að dæma víti og reka Oliver af velli. 

Daníel Hafsteinsson fór á punktinn og skoraði af miklu öryggi. Staðan var því 1:1 þegar flautað var til hálfleiks og KA-menn einum fleiri allan seinni hálfleikinn.

Daníel Hafsteinsson skorar af miklu öryggi úr vítaspyrnu og jafnar metin fyrir KA í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þrátt fyrir að vera einum fleiri tókst KA-mönnum ekki að nýta sér það að ráði í seinni hálfleik. Blikar léku vel og voru óhræddir við að halda boltanum. Vissulega voru þeir opnir til baka þegar KA-menn unnu boltann hátt á vellinum en það vantaði herslumuninn hjá heimamönnum til að ná inn marki. Bæði lið fengu góð færi til að skora í seinni hálfleik en hvorugu liðinu tókst það.

Uppbótartíminn var afar skrautlegur þar sem bæði lið reyndu hvað þau gátu til að stela sigrinum. Daníel Hafsteinsson fékk gott færi inn í teig KA-manna en Brynjar Atli varði vel í markinu. Örskömmu síðar slapp Kristinn Steindórsson einn í gegn frá miðju og var hann í kjörstöðu til að tryggja sigurinn en skot hans fór þó yfir markið. Eftir klúður Kristins fengu KA-menn annan séns í teignum en hetjuleg tækling frá Kristófer Inga kom í veg fyrir að KA-menn næðu að skora. 

Lokatölur urðu því 1:1 í skemmtilegum leik. Eftir leikinn er KA-liðið í 8. sæti deildarinnar með 22 stig.

Smelltu hér til að skoða leikskýrsluna.

Nánari umfjöllun og myndasyrpa í kvöld