Fara í efni
KA

KA og Álftanes leika um deildarmeistaratitilinn

KA og Álftanes mætast í hreinum úrslitaleik um deildarmeistaratitilinn í blaki kvenna í KA-heimilinu í dag. Viðureign dagsins, sem hefst kl. 13.00, er síðasti leikur beggja liða í deildarkeppninni, þau eru jöfn að stigum og sigurvegarinn í dag verður því deildarmeistari.

KA-stelpurnar voru þremur stigum á undan Álftanesi þegar hefðbundinni deildarkeppni lauk en eftir það var gripið til þess sem kallað er „krossspil“ þriggja efstu liða. KA tapaði um síðustu helgi fyrir Aftureldingu á útivelli en Álftanes hafði áður unnið lið Aftureldingar.

KA varð bikarmeistari fyrr í vor og sló þá lið Álftaness út í 8-liða úrslitunum í leik sem var í raun úrslitaleikur keppninnar. „Það var vitað mál að það yrði lang mest spennandi leikur keppninnar þegar við spiluðum við Álftanes,“ sagði Gígja Guðnadóttur, fyrirliði KA, við Akureyri.net eftir að hún hampaði bikarnum.