KA
KA nægir stig á Nesinu til að halda sér í deildinni
10.04.2023 kl. 12:45
Jónatan Magnússon stjórnar KA-liðinu í handbolta í síðasta skipti þegar það sækir Gróttu heim í dag í lokaumferð Olís deildarinnar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
KA sækir Gróttu heim í dag í lokaumferð Olísdeildar karla, efstu deildar Íslandsmótsins í handbolta. Baráttan á botni deildarinnar er æsispennandi.
Hörður frá Ísafirði er lang neðstur og fallinn en KA er einu stigi fyrir ofan ÍR, sem er í næst neðsta sætinu. Tvö lið falla. Á sama tíma og Grótta og KA leika á Seltjarnarnesi eigast Fram og ÍR við á heimavelli Fram í Úlfarsárdal.
Verði KA og ÍR jöfn að stigum standa KA-menn betur að vígi og ÍR fellur. Liðin mættust tvisvar í deildinni í vetur og unnu hvort sinn leik en KA er með mun betri markatölu úr innbyrðis leikjunum.
Þar sem einu stigi munar nú nægir KA jafntefli gegn Gróttu þótt svo færi að ÍR ynni Fram.
Ekki er einungis mikið í húfi fyrir KA í leiknum á Nesinu í dag heldur gæti Grótta tryggt sér sæti í átta liða úrslitakeppni um Íslandsmeistaratitilinn með sigri. Til þess þurfa Haukar að vísu að tapa á heimavelli fyrir Herði frá Ísafirði en á því eru nær engar líkur. En gerist það ævintýri í Hafnarfirði og Grótta vinni KA verða Haukar og Grótta jöfn að stigum og Seltirningar standa þá betur að vígi í innbyrðis viðureignum við Hauka.
Leikurinn á Seltjarnarnesi hefst klukkan 16.00 og verður sýndur beint á Grótta TV á youtube.