Fara í efni
KA

KA-menn unnu Þórsara og hömpuðu bikarnum

Ásgeir Sigurgeirsson, fyrirliði KA, með Kjarnafæðisbikarinn í gærkvöldi. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

KA sigraði Þór í úrslitaleik Kjarnafæðismótsins í knattspyrnu í Boganum í gærkvöldi. Eftir markalausan fyrri hálfleik gerðu KA-menn þrjú mörk í þeim seinni og unnu 3:0. KA-menn hafa nú unnið mótið fimm ár í röð.

Það er hefð að Akureyrarfélögin leiki til úrslita í þessu árlega æfingamóti Knattspyrnudómarafélags Norðurlands. Sennilega má segja að það sé líka hefð að ekkert sé gefið eftir í viðureign liðanna. Sú varð raunin og úr varð fín skemmtun fyrir fjölmarga áhorfendur. Leikurinn var í jafnvægi lengi vel en eftir að Andri Fannar Stefánsson kom KA-mönnum yfir þegar tæpur hálftími var eftir voru þeir komnir í þægilegri stöðu. Skot Skot Andra utan teigs fór í varnarmann og breytti mikið stefnu þannig að Aron Birkir í markinu átti enga möguleika á að verja. 

Mörkin:

  • 0:1 Andri Fannar Stefánsson (64. mín.)
  • 0:2 Nökkvi Þeyr Þórisson (74.)
  • 0:3 Ívar Örn Árnason (86.)

Eftir þriðja markið var Þórsarinn Sigurður Marinó Kristjánsson rekinn af velli og Elfar Árni Aðalsteinsson, leikmaður KA, fékk áminningu. Sigurður danglaði fæti í Ívar Örn þegar hann hljóp fagnandi frá marki og Elfar Árni ákvað að gera málið upp fyrir félaga sinn! Sigurður og markaskorarinn eru perluvinir, en enginn er annars bróðir í leik ...

Leikmenn og þjálfarahópur KA eftir sigur í Kjarnafæðismótinu í gærkvöldi. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.