Fara í efni
KA

KA-menn unnu Leikni en ekki nógu stórt

Ásgeir Sigurgeirsson gerði tvö mörk gegn Leikni í gær. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA vann Leikni 3:0 í Reykjavík í gær í síðasta leik 4. riðils A-deildar Lengjubikarkeppni karla í knattspyrnu. KA-strákarnir jöfnuðu þar með topplið Akurnesinga að stigum en þar sem ÍA er með betri markatölu fer liðið í undanúrslit keppninnar.

Markalaust var allt þar til átta mínútur voru til leiksloka; Ásgeir Sigurgeirsson braut þá ísinn, Leiknismaðurinn Bjarni Arnaldarson gerði sjálfsmark skömmu síðar og Ásgeir gulltryggði sigurinn þegar hann gerði annað mark sitt í blálokin.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna

VIÐBÓT – Eftir að hafa séð myndbandsupptöku úr leiknum verður að nefna að þótt annað mark KA sé skráð sem sjálfsmark Bjarna markvarðar Leiknis á leikskýrslu KSÍ var þar um að ræða snilldartilþrif Daníels Hafsteinssonar. Hann fékk boltann rétt aftan við miðlínu, sá að Bjarni var framarlega í vítateignum og lét því vaða; á myndinni hér að neðan er Daníel um það bil að skjóta, boltinn sveif í fallegum boga í átt að marki Leiknis, small í þverslánni og fór þaðan í bak Bjarna, sem reyndi að verja, og í netið.