Fara í efni
KA

KA-menn töpuðu fyrir Selfyssingum

Óðinn Þór Ríkharðsson var markahæstur hjá KA í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

KA-menn töpuðu fyrir Selfyssingum, 25:24, í dag í efstu deild Íslandsmótsins í handbolta, Olís deildinni. KA hefur þar með tapað sjö leikjum af 10 en aðeins unnið þrjá. Liðið er með sex stig í 10. sæti þegar deildarkeppnin er tæplega hálfnuð.

Selfyssingar, sem voru á heimavelli, byrjuðu mun betur en KA-menn nálguðust þá hægt og rólega. Forskot heimamanna var þó tvö mörk í hálfleik, 12:10. KA-menn byrjuðu seinni hálfleikinn afleitlega, Selfyssingar gerðu fyrstu þrjú mörkin, staðan þá 15:10, og komust svo í 18:11. Aftur gyrtu KA-menn sig í brók og með mjög góðum kafla náðu þeir að jafna, 21:21, þegar um þrjár mínútur voru eftir. Það dugði þó ekki til.

Jónatan Magnússon, þjálfari KA, var ekki ánægður í viðtali við Vísi eftir leikinn. Hann var ekki síst ósáttur við upphafskaflann í seinni hálfleik. „Við fórum því miður ekki eftir því sem við ætluðum að gera sem við ræddum saman í hálfleik. Vera agaðri og bíða lengur. Við settum okkur í vonda stöðu á raun fyrstu þrem mínútum í byrjun seinni. Það var svona barátta eftir það að reyna að ná þeim en svo tókst það með frábærri vörn og markvörslu. Náðum þá að koma okkur inn í leikinn en svo ekkert ósvipað og úr síðasta leik, því miður, það eru fjórar mínútur eftir og við vinnum boltann og staðan er jöfn og við förum illa að ráði okkar. Það er það sem er vendipunkturinn. Við erum ekki að ná að spila nógu vel til þess að ná í stig.“ 

Mörk KA: Óðinn Þór Ríkharðsson 8 (3 víti), Einar Rafn Eiðsson 4, Patrekur Stefánsson 3, Arnar Freyr Ársælsson 3, Arnór Ísak Haddsson 2, Ólafur Gústafsson 2, Pætur Mikkjalsson 1 og Jóhann Geir Sævarsson 1.

Nicholas Satchwell varði 14 skot.

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina.

Smellið hér til að sjá ítarlega umfjöllun á Vísi.