Fara í efni
KA

KA-menn steinlágu fyrir Selfyssingum

Einar Rafn Eiðsson var markahæstur í KA-liðinu á Selfossi í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA-menn fóru illa að ráði sínu í kvöld þegar þeir mættu Selfyssingum á útivelli í Olís deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í handbolta. Selfyssingar unnu 10 marka sigur, 34:24.

Heimamenn kafsigldu gestina í raun strax í upphafi; staðan var orðin 6:1 eftir tæplega átta mínútur og munurinn var orðinn níu mörk í hálfleik – 21:12. Lið KA var mun skárra í seinni hálfleik en munurinn var orðinn svo mikill að það breytti engu og í raun var einungis formsatriði að ljúka leiknum.

Mörk KA: Ein­ar Rafn Eiðsson 5, Dag­ur Gauta­son 4, Arn­ór Ísak Hadds­son 4, Gauti Gunn­ars­son 2, Har­ald­ur Bolli Heim­is­son 2 Ísak Óli Eggerts­son 2, Dag­ur Árni Heim­is­son 2, Skarp­héðinn Ívar Ein­ars­son 2, All­an Norðberg 1.

Markmenn KA vörðu alls 12 skot en Vilius Rasimas var frábær í marki Selfyssingu, varði 18 skot sem er nærri 50% markvarsla.

KA er í níunda sæti með fimm stig eftir sex leiki.

Smelltu hér til að sjá alla tölfræði.