Fara í efni
KA

KA-menn standa vel í baráttunni um silfrið

Úr leik KA og Vals á Akureyri í sumar. Valsarinn Guðmundur Andri Tryggvason var rekinn út af á 68. mínútu fyrir að slæma hendi framan í Kristijan Jajalo, markvörð KA þegar hann hafði gripið boltann eftir fyrirgjöf. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA tekur á móti Val í lokaumferð Bestu deildarinnar, efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu, sem fer fram í dag. Leikir dagsins hefjast allir klukkan 13.00.

Breiðablik tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn fyrir nokkru. Blikarnir hafa 60 stig, KA-menn eru í öðru sæti með 50 stig og standa vel að vígi í baráttunnum um silfurverðlaunin því Víkinga eru með 48 stig og sækja nýkrýnda meistara Blika heim í dag

KA og Valur gerðu 1:1 jafntefli þegar liðin mættust á KA-vellinum (nýja Greifavellinum) í sumar. Nökkvi Þeyr Þórisson gerði mark KA en margir muna ekki síður eftir leiknum vegna atviks á 68. mínútu þegar Valsarinn Guðmundur Andri Tryggvason var rekinn út af fyrir að slæma hendi framan í Kristijan Jajalo, markvörð KA þegar hann hafði gripið boltann eftir fyrirgjöf. Það var algjör óþarfi og raunar óskiljanlegt hvers vegna Guðmundur tók þetta til bragðs. Erlendur Einarsson dómari var nærstaddur og dró rauða spjaldið þegar í stað úr rassvasanum.

Nökkvi Þeyr Þórisson, sem skorar hér gegn Val á Akureyri í sumar, er enn markahæstur í Bestu deildinni með 17 mörk þrátt fyrir að hafa haldið á braut til Belgíu í byrjun september. Framarinn Guðmundur Magnússon er orðinn jafn Nökkva.