Fara í efni
KA

KA-menn öruggir í úrslitakeppnina

Árni Bragi Eyjólfsson sæll og glaður eftir að hann gerði síðasta mark KA í leiknum. Martha Hermannsdóttir, fyrirliði handboltaliðs KA/Þórs, er ekki síður glöð í stúkunni! Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

KA er öruggt með sæti í úrslitakeppni Íslandsmótsins í handbolta eftir sigur á FH í KA-heimilinu í kvöld. 

KA-menn unnu leikinn 30:29 og skutust þar með úr áttunda sæti upp í það fjórða. Eru með 24 stig eins og Selfoss, tveimur á eftir FH, einu á undan Stjörnunni, ÍBV og Val og tveimur stigum á undan Aftureldingu, sem nú er í áttunda sætinu því síðasta sem gefur sæti í úrslitakeppninni. Haukar eru langefstir en að öðru leyti er keppnin hnífjöfn og ógerningur að spá fyrir um hver lokaröð liðanna verður, nú þegar aðeins tvær umferðir eru eftir.

Eftir jafnan og spennandi leik gulltryggði Árni Bragi Eyjólfsson sigur KA í kvöld með 30. markinu á lokamínútunni. Það var vel við hæfi því Árni Bragi gerði 11 mörk og var markahæstur eins og svo oft áður. Birgir Már Birgisson minnkaði muninn andartökum síðar en KA-menn þurftu ekki að hafa neinar áhyggjur því þeir tóku miðju og leiktíminn rann út áður en FH-ingar náðu að ráðast almennilega að þeim.

Hart var tekist á í leiknum enda mikið í húfi. Með sigri hefði FH farið langleiðina með að gulltryggja sér annað sætið og KA-menn urðu að ná í stig til að vera öruggir í úrslitakeppnina.

Heimamenn byrjuðu vel, ekki síst vegna þess að markvörðurinn Satchwell varði ótrúlega á upphafskaflanum; sex skot á fyrstu 11 mínútunum. KA komst í 8:6 en þá gerðu FH-ingar sex mörk gegn einu á nokkrum mínútum og voru skyndilega komnir í 12:9. Gestirnir höfðu eins marks forskot í hálfleik, 13:12.

FH komst mest þremur mörkum yfir, 19:16, þegar 10 mínútur voru liðnar af seinni hálfleik en sex mínútum seinna var KA komið í 22:20. Eftir það hélst spennan allt til enda; á lokakaflanum var jafnt á öllum tölum frá 23:23 frá til 26:26, en þá komust KA-menn tveimur mörkum yfir og FH-ingar náðu þeim ekki aftur. Í svona jafnri baráttu ráða ýmis smáatriði úrslitum; nefna má gott dæmi í stöðunni 26:26, þegar varnartröllið Ragnar Snær Njálsson varði skot frá stórskyttunni Agli Magnússyni. Fimm mínútur voru eftir, KA-menn gerðu tvö næstu mörk og gestirnir náðu þeim ekki aftur. Svona varnartilþrif vilja stundum falla í skuggann fyrir fallegum mörkum, en eru ótrúlega dýrmæt.

Mörk KA: Árni Bragi Eyjólfsson 11 (2 víti), Patrekur Stefánsson 6, Jón Heiðar Sigurðsson 5, Allan Norðberg 4, Andri Snær Stefánsson 1, Jóhann Einarsson 1, Einar Birgir Stefánsson 1 og Daði Jónsson 1. Nicholas Satchwell varði 11 skot.

    • Hvorki Ólafur Gústafsson né Áki Egilsnes voru með KA í kvöld. Ólafur hefur verið mikið frá vegna meiðsla í hné, var byrjaður aftur en meiðslin tóku sig upp. Áki tognaði illa á ökkla á æfingu í gærkvöldi og Jónatan Magnússon, þjálfari KA, vildu engu spá um það, í samtali við Akureyri.net, hvenær þeir yrðu leikfærir á ný.

 

Smellið hér til að skoða leikskýrsluna

Ragnar Snær Njálsson ver skot frá Agli Magnússyni þegar staðan var jöfn og fimm mínútur eftir. Mikilvægt augnablik í leiknum.

Patrekur Stefánsson veit að sigur er nánast í höfn, sekúndubroti eftir að Árni Bragi Eyjólfsson gerði 30. mark KA. Einar Rafn Eiðsson (13), sem gengur til liðs við KA í sumar, er heldur súr á svip.

Arnar Freyr Ársælsson (22) fagnar einu þriggja marka sinna í kvöld. Hann gengur til liðs við KA í sumar.

KA-menn fagna eftir leikinn.  Fremstir fyrir miðju Jón Heiðar Sigurðsson og Áki Egilsnes sem var illa fjarri góðu gamni í kvöld; Áki sneri sig á ökkla á æfingu í gærkvöldi og alls er óvíst hve lengi hann verður frá. 

Stemmingin var frábær í KA-heimilinu í kvöld og mikil gleði í leikslok.