Fara í efni
KA

KA-menn náðu sér ekki á strik og töpuðu í Eyjum

KA-maðurinn Sveinn Margeir Hauksson í baráttu við Oliver Heiðarsson, fyrir miðju, og Arnar Breka Gunnarsson í Eyjum í dag. Ljósmynd: Sigfús Gunnar Guðmundsson

KA-menn náðu sér ekki á strik í Vestmannaeyjum í dag og töpuðu 2:0 fyrir ÍBV í Bestu deild karla, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Þetta er annað tap liðsins í röð í deildinni.

KA er því áfram með 17 stig í 5. sæti en gæti misst HK og KR upp fyrir sig í kvöld, þegar bæði liðin verða í eldlínunni. Með sigrinum fór ÍBV upp úr fallsæti, er komið með 13 stig og fór úr 11. sæti í það áttunda, amk tímabundið.

Miklar vindhviður settu svip á leikinn og gerðu leikmönnum erfitt fyrir. KA-menn áttu nokkur skot í átt að marki í fyrri hálfleiknum en sköpuðu þó aldrei hættu og seinni hálfleikur var álíka daufur og sá fyrri – nema hvað Eyjamenn gerðu tvö mörk á þriggja mínútna kafla; það fyrra skoraði Bjarki Björn Gunnarsson á 63. mín. með skoti úr markteignum eftir sendingu Olivers Heiðarssonar og á 66. mín. bætti Oliver sjálfur við marki. Hann fékk boltann úti á velli, tók á rás og komst inn á teig, fór illa með Ívar Örn Árnason og síðan Jajalo markvörð með því að þruma boltanum efst í nærhærnið hægra megin úr teignum.

Einn Eyjamanna, Rich­ard King, fékk gult spjald öðru sinni og þar með rautt, þegar um 20 mínútur voru eftir. KA-menn því einum fleiri það sem eftir var en náðu ekki að færa sér liðsmuninn í nyt; voru mikið með boltann og sóttu mun meira eins og nærra má geta, voru oft nálægt því að komast í bærileg færi til að skora en voru klaufar. Því fór sem fór.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna