Fara í efni
KA

KA-menn náðu í stig eftir afleita stöðu

Patrekur Stefánsson var mjög drjúgur í KA-liðinu í seinni hálfleik þegar hann gerði fimm af sjö mörkum sínum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA og Stjarnan skildu jöfn í KA-heimilinu í kvöld, 29:29, í Olís deild karla í handbolta, efstu deild Íslandsmótsins. Það verður að teljast gott stig fyrir KA-menn eins og leikurinn spilaðist lengi vel.

Stjörnumenn byrjuðu með látum og komust fljótlega í 4:0, síðan í 6:1, 10:5 og 13:7, og þegar flautað var til leikhlés var staðan 14:8 fyrir gestina.

KA-menn náðu sér engan vegin á strik og framan af seinni hálfleik benti ekkert til annars en það sama yrði áfram upp á teningnum. En þegar um það bil 10 mínútur voru liðnar gjörbreyttist leikurinn; KA-strákarnir fundu loks taktinn, sem virtist hafa gleymst í þeirri miklu tónlistarborg Vín, þar sem þeir léku í Evrópukeppninni um síðustu helgi, en Stjörnumenn voru aftur á móti skyndilega heillum horfnir.

KA minnkaði muninn hratt og örygglega og jafnaði í fyrsta skipti, 23:23, þegar Dagur Gautason skoraði úr víti. Þá voru rúmar 10 mín. eftir og sjö mín. fyrir leikslok komst KA yfir í fyrsta skipti, 27:26. Patrekur Stefánsson, sem var afar drjúgur í seinni hálfleiknum, skoraði þá eftir gegnumbrot.

KA komst í 28:26 með marki Dags Árna Heimissonar en hafi einhver verið búinn að afskrifa Stjörnumenn var það of snemmt þrátt fyrir afleitan leikkafla, því þeir jöfnuðu, KA komst yfir á ný með marki Gauta Gunnarsson en Stjarnan jafnaði. Ekki var meira skorað en litlu munaði að Einar Rafn Eiðsson tryggði KA bæði stigin á lokasekúndunni; hann þrumaði í markið úr vonlausri stöðu við endalínunu en tíminn var runninn út þegar boltinn söng í netinu.

KA er nú í áttunda sæti deildarinnar með sex stig eftir sjö leiki, stigi á eftir stjörununni.

Mörk KA: Patrekur Stefánsson 7, Dagur Gautason 7 (2 víti), Gauti Gunnarsson 5, Einar Rafn Eiðsson 4, Dagur Árni Heimisson 4, Einar Birgir Stefánsson 2. Varin skot: Nicholas Adam Satchwell 8, Bruno Bernat 4.

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina.