Fara í efni
KA

KA-menn með annan fótinn í Evrópukeppni

Þorri Mar Þórisson á fleygiferð með boltann í átt að marki KR; sigurmark leiksins kom eftir að hann þrumaði inn á markteiginn þar sem boltinn hrökk í varnarmann og í netið. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA-menn voru í góðri stöðu áður en fimm leikja „framlenging“ Bestu deildarinnar í knattspyrnu hófst í dag og enn betri nú, eftir 1:0 sigur á KR-ingum í fyrsta leik á heimavelli. Segja má að KA-strákarnir séu komnir með annan fótinn í Evrópukeppni á næsta keppnistímabili.

KA þyrfti að tapa öllum fjórum leikjunum sem eftir eru og Valur að vinna alla fimm til að Evrópusætið gengi KA-mönnum úr greipum. Það er óhugsandi. Þriðja sæti gefur þátttökurétt í Evrópukeppni, svo fremi Víkingur verði í öðru sæti, þar sem Víkingar urðu bikarmeistarar í gær. KA fær því þátttökurétt í Evrópukeppni hvort sem liðið verður í 2. eða 3. sæti.

Draumur KA um Íslandsmeistaratitil er að sjálfsögðu enn fyrir hendi, lið Breiðabliks er þó lang sigurstranglegast sem fyrr en misstígi Blikar sig illilega eru KA-menn og Víkingar ekki mjög langt undan. Spennandi barátta er því framundan næsta mánuðinn.

Leikurinn í dag fer ekki í sögubækur fyrir skemmtanagildi en úrslitin og stigin eru það eina sem skiptir máli þegar upp er staðið. Eina markið kom strax á þriðju mínútu seinni hálfleiks; Þorri Mar Þórisson, hægri bakvörður KA, lék upp að endamörkum og þrumaði boltanum inn á markteiginn þar sem hann skaust í varnarmann KR, Pontus Lindgren, og í netið.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna á vef KSÍ.

Hallgrímur Jónasson fer vel af stað sem aðalþjálfari KA og var vitaskuld glaður og reifur að leikslokum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson