Fara í efni
KA

KA-menn komnir í bikarúrslitahelgina

Ragnar Snær Njálsson, varnarjaxlinn sterki í KA-liðinu, fagnar sigrinum í dag ásamt ungum KA-mönnum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA-menn sigruðu Hauka í hörkuleik í KA-heimilinu síðdegis, 28:26, í átta liða úrslitum Coca Cola bikarkeppninnar í handbolta. Þar með tryggðu þeir sér sæti í fjögurra liða bikarúrslitahelgi sem fram fer á Ásvöllum í Hafnarfirði; undanúrslitin verða fimmtudaginn 10. mars og úrslitaleikurinn laugardaginn 12. mars.

KA-menn, hvattir af háværum og kröftugum stuðningsmönnum, náðu mest fjögurra marka forystu í fyrri hálfleik og með frábærum kafla snemma í þeim seinni komust þeir sex mörkum yfir – 18:12. Það bil náðu Haukar aldrei að brúa; þeir náðu nokkrum sinnum að minnka muninn í tvö mörk eftir að Aron Rafn Eðvarðsson hrökk í gang í markinu og vörnin efldist, og í blálokin munaði aðeins einu marki. En það var Óðinn Þór Ríkharðsson sem gulltryggði sigur KA með marki úr vítakasti þegar 16 sekúndur voru eftir, 28:26.

Sóknarleikur KA var býsna góður en grunnur að sigrinum var þó lagður með mjög öflugum varnarleik og stórbrotinni frammistöðu hins 19 ára Bruno Bernat í markinu. Hann fór hreinlega hamförum, sérstaklega í fyrri hálfleik, og varði alls ein 20 skot, þar af eitt víti,

Ólafur Gústafsson og Ragnar Snær Njálsson voru eins og klettar í miðri KA-vörninni og Einar Birgir Stefánsson lék einnig sérlega vel í vörn, sem og Arnar Freyr Ársælsson. Í sókninni var Óðinn Þór iðinn við kolann eins og svo oft áður og Færeyingurinn Allan Norðberg hefur komið skemmtilega á óvart undanfarið; hann hefur aldrei verið í burðarhlutverki hjá KA en nú, þegar hann verður að fylla skarð Einars Rafns Eiðssonar, hefur Norðberg staðið sig vel.

Mörk KA: Óðinn Þór Ríkharðsson 10 (2 víti), Allan Norðberg 6, Patrekur Stefánsson 5, Jón Heiðar Sigurðsson 2, Haraldur Bolli Heimisson 1, Arnór Ísak Haddsson 1, Arnar Freyr Ársælsson 1, Einar Birgir Stefánsson 1 og Bruno Bernat 1.

Bruno Bernat varði 42% allra skot sem hann fékk á sig.

Einar Birgir Stefánsson, Ólafur Gústafsson og Ragnar Snær Njálsson á varnarvaktinni. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Bruno Bernat ver af stakri snilld undir lok leiksins. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.