Fara í efni
KA

KA í bikarúrslit eftir 19 ára bið – MYNDIR

Rodri Gomes skorar úr síðustu vítaspyrnu kvöldsins á Greifavellinum, tryggir KA sigur í ævintýralegri viðureign og þar með sæti í úrslitaleik bikarkeppninnar. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

KA-menn eru komnir í bikarúrslit í knattspyrnu í fyrsta sinn í 19 ár eftir frækinn 6:4 sigur á Breiðabliki eftir vítaspyrnukeppni, eins og Akureyri.net sagði frá fyrr í kvöld: Ótrúlegt ævintýri og KA í bikarúrslit

  • Ítarlegri myndasyrpa verður birt á Akureyri.net á morgun.

Eftir rólegan fyrri hálfleik varð leikurinn mikil skemmtun þegar leið á. Áhorfendur fengu nóg af mörkum og nóg af dramatík. KA-liðið sýndi mikinn karakter í kvöld með því að koma tvisvar sinnum til baka þegar útlitið var orðið mjög svart, bæði undir lok venjulegs leiktíma og í framlengingu.

KA-menn, sem hafa ekki verið að spila vel undanfarið, þjöppuðu sér saman og skiluðu góðri liðsframmistöðu þar sem flestir spiluðu vel. Þó áttu sumir leikmenn KA stjörnu frammistöður. Sem dæmi má nefna fyrirliðann, Ívar Örn Árnason sem var eins og klettur í vörninni, átti mikilvægar tæklingar og skoraði markið sem tryggði liðinu framlengingu.

Það verður áhugavert að sjá hvað þessi sigur gefur KA í næstu leikjum en liðið á Evrópuleiki framundan ásamt því að keppni í Bestu deildinni heldur áfram. Það á svo eftir að koma í ljós hvort það verður Víkingur Reykjavík eða KR sem verða andstæðingar KA á Laugardalsvelli 26. ágúst næstkomandi. 

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna úr leiknum.

 _ _ _

VEL MÆTT Á VÖLLINN - STEMMING Í STÚKUNNI

Það var vel mætt á Greifavöllinn í dag, þrátt fyrir óhefðbundinn leiktíma, 17.30. Heimamenn voru vel hvattir áfram í stúkunni og gestirnir úr Kópavogi fengu líka góðan stuðning en töluverður fjöldi þeirra var mættur vegna N1-mótsins sem fram fer í vikunni. Áhorfendur í dag voru 855 talsins.

 _ _ _

LOKAÐUR FYRRI HÁLFLEIKUR - GESTIRNIR MEÐ YFIRHÖNDINA

Leikurinn byrjaði fremur rólega og bæði lið virtust taugaóstyrk enda mikið í húfi. Gestirnir úr Kópavogi voru þó hættulegri í fyrri hálfleik og voru nokkrum sinnum nálægt því að skora. Kristijan Jajalo varði oft á tíðum vel í markinu. Staðan var markalaus þegar flautað var til hálfleiks.

_ _ _

1:0 - ÁSGEIR KEMUR HEIMAMÖNNUM YFIR

Á 57. mínútu leit fyrsta markið dagsins ljós og voru það heimamenn sem gerðu það. Eftir fínt spil KA barst boltinn inn fyrir inn í teig á Jakob Snæ Árnason, hann keyrði inn að markteig og átti fast skot með vinstri fæti sem Anton Ari varði í markinu. Frákastið barst hins vegar út í vítateiginn og þar var Ásgeir Sigurgeirsson vel staðsettur og kom boltanum yfir línuna. 

_ _ _

1:1 - KLÆMINT OLSEN JAFNAR FYRIR GESTINA

Eftir mark KA-manna unnu gestirnir sig inn í leikinn og sóknarþungi þeirra óx með hverri mínútu. Það var ekki fyrr en á 87. mínútu leiksins sem að varamaðurinn Klæmint Olsen jafnaði leikinn fyrir Blika. Eftir þunga sókn barst boltinn út á hægri kant þar sem Viktor Karl Einarsson átti góða sendingu inn í teiginn. Á markteigslínunni reis Klæmint yfir Dusan Brkovic og skallaði boltann í nærhornið. Staðan orðin 1:1 og allt stefndi í framlengingu. Svekkjandi fyrir KA-menn en stuttu áður hafði Hallgrímur Mar Steingrímsson átt hörkuskot í stöngina.

_ _ _

1:2 - HÖSKULDUR KEMUR BLIKUM YFIR ÚR AUKASPYRNU

Á 90. mínútu leiksins fengu Blikar aukaspyrnu rétt utan vítateigs, spyrnan var örlítið vinstra megin við miðju fyrir aftan vítateigsbogann. Höskuldur Gunnlaugsson (lengst til vinstri á myndunum) tók spyrnuna. Setti boltann yfir vegginn og Jajalo í markinu náði ekki til hans. Spyrnan var vissulega yfir vegginn en hún var ekki í hornið og Jajalo hefði mátt gera mun betur. 

_ _ _

2:2 - ÍVAR ÖRN JAFNAR Á LOKASEKÚNDU LEIKSINS

Þegar Höskuldur kom Blikum yfir voru 92 mínútur liðnar af leiknum og uppgefinn uppbótartími fimm mínútur. Það stefndi allt í gríðarlega svekkjandi tap KA en þegar leikklukkan sló 96:03 tók Hallgrímur Mar Steingrímsson hornspyrnu. Daníel Hafsteinsson náði að strjúka boltann og Rodri náði að koma honum fyrir markið. Þar var Ívar Örn Árnason mættur og náði að koma boltanum yfir línuna af harðfylgi. Þetta reyndist síðasta spyrnan í venjulegum leiktíma.

_ _ _

2:3 - BLIKAR FÁ VÍTI OG HÖSKULDUR KEMUR GESTUNUM YFIR Á NÝ

Framlengingin var tíðindalítil til að byrja með en þreytan var farin að segja til sín hjá báðum liðum. Á 105. mínútu dró til tíðinda þegar Blikar fengu vítaspyrnu. Davíð Ingvarsson og Pætur Petersen reyndu þá báðir að ná til boltans á vítateigs horninu. Davíð var á undan í boltann og Pætur sparkaði í stoðfót Davíðs sem féll með tilþrifum. Ívar Orri benti á punktinn og heimamenn voru ekki sáttir, við endursýningu sést að Pætur sparkar í Davíð og því hægt að réttlæta vítaspyrnudóminn. Höskuldur Gunnlaugsson fór á punktinn og skoraði, Jajalo var í boltanum en það dugði ekki til.

_ _ _

3:3 - PÆTUR PETERSEN JAFNAR OG BÆTIR UPP FYRIR VÍTIÐ

Þegar Höskuldur kom Blikum yfir í annað sinn héldu flestir að þessum ótrúlega leik færi að ljúka en KA-menn neituðu hreinlega að gefast upp. Á 117. mínútu leiksins jafnaði Pætur Petersen leikinn með skalla. Ingimar Stöle átti þá góðan sprett upp hægri kantinn sem endaði með fyrirgjöf inn í teig. Þar náði Pætur að koma sér fram fyrir varnarmann og skora með fínum skalla í fjærhornið. 

_ _ _

VÍTASPYRNUKEPPNI

Lokatölur eftir framlengingu 3:3 og því þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni. Það voru KA-menn sem byrjuðu ...

1. SPYRNA KA (3:3)

Elfar Árni Aðalsteinsson spyrnir í vinstra hornið en Anton Ari les hann og ver skotið. 

1. SPYRNA BREIÐABLIKS (3:4)

Höskuldur Gunnlaugsson kemur Blikum yfir með öðru víti sínu í leiknum.

2. SPYRNA KA (4:4)

Daníel Hafsteinsson jafnar metin. Sendi Anton Ara í vitlaust horn.

2. SPYRNA BREIÐABLIKS (4:4)

Gísli Eyjólfsson spyrnir í vinstra hornið; þetta er keimlíkt spyrnu Elfars Árna og Jajalo ver.

3. SPYRNA KA (4:4)

Hallgrímur Mar Steingrímsson skýtur hátt yfir markið.

3. SPYRNA BREIÐABLIKS (4:4)

Viktor Karl Einarsson skýtur hátt yfir markið.

4. SPYRNA KA (5:4)

Ívar Örn Árnason skorar af öryggi. Spyrna á mitt markið.

4. SPYRNA BREIÐABLIKS (5:4)

Klæmint Olsen skýtur yfir markið.

5. SPYRNA KA (6:4)

Rodrigo Gomes Matteo rennir boltanum í hornið og tryggir KA sigur í ótrúlegum leik. Markvörðurinn henti sér í hina áttina.