Fara í efni
KA

KA-menn burstuðu Íslandsmeistarana

Sebastian Brebels gerði tvö mörk gegn Valsmönnum í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

KA-menn eru komnir upp í þriðja sæti Pepsi Max deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu eftir að þeir burstuðu Íslandsmeistara Vals, 4:1, á útivelli í kvöld. Þeir eru því kjörstöðu í baráttu um sæti í Evrópukeppni næsta sumar – að því gefnu að Víkingar verði bikarmeistarar. Ísland á tvö örugg sæti í Evrópukeppni ár hvert en fær það þriðja verði annað hvort liðanna í tveimur efstu sætunum bikarmeistari.

Aðeins ein umferð er eftir af efstu deild; KA-menn taka á móti FH-ingum næsta laugardag, á sama tíma og KR leikur við Stjörnuna í Garðabæ, en KR-ingar eru stigi á eftir KA.

1:0 (5. mínúta) Patrick Pedersen sendi boltann snilldarlega inn fyrir vörn KA, hægri bakvörðurinn Birkir Már Sævarsson kom skeiðandi fram á hárréttu augnabliki og skoraði af stuttu færi áður en Steinþór Már markvörður náði til boltans.

1:1 (25.) KA-menn héldu boltanum í góða stund og sókninni lauk með því að hægri bakvörðurinn, Daninn Mark Gundelach, sendi á Sebastiaan Brebels og belgíski miðjumaðurinn skoraði með góðu innanfótarskoti.

1:2 (63.) Eftir að Valsmenn hófu seinni hálfleikinn af miklum krafti og klúðruðu tveimur dauðafærum, gerðu KA-menn tvær breytingar á liði sínu á 62. mín. Nökkvi Þeyr Þórisson og Sveinn Margeir Hauksson komu inn á og strax í næstu sókn skoraði Nökkvi! Hann skaut að marki, boltinn fór í varnarmann og hrökk aftur til Nökkva, sem þakkaði pent fyrir sig með laglegu skoti í hornið!

1:3 (76.) Eftir góðan undirbúning Nökkva Þeys og Gundelach komst Daninn í gott færi en í stað þess að skjóta sjálfur renndi hann boltanum til hliðar á Brebels sem sendi boltann auðveldlega í tómt markið.

1:4 (80.) Góð skyndisókn KA og enn var Gundelach á ferðinni; hann komst í góða stöðu en renndi boltanum til hliðar á Elfar Árna Aðalsteinsson sem skoraði örugglega.

Mikil dramatík einkenndi leik dagsins á Íslandsmótinu. Breiðablik var efst fyrir daginn en tapaði 1:0 fyrir FH á sama tíma og Víkingur vann KR 2:1 í Vesturbænum.

Breiðablik fékk víti sem ekki nýttist í Hafnarfirði; Árni Vilhjálmsson skaut hátt yfir, og á lokasendúnum varði Ingvar Jónsson, markvörður Víkings, víti frá Pálma Rafni Pálmasyni. Hefðu báðir skorað af vítapunktinum væri Breiðablik með 45 stig fyrir síðustu umferðina en Víkingur 43. Staðan er hins vegar þannig að Víkingur er efstur með 45 stig og Blikarnir hafa 44. Sannarlega stutt á milli hláturs og gráts!

Í síðustu umferðinni næsta laugardag eru þessir leikir á dagskrá:

KA - FH
Breiðablik - HK
Víkingur - Leiknir
Fylkir - Valur
Stjarnan - KR
Keflavík - ÍA

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.

Smellið hér til að sjá stöðuna í deildinni.

Danski bakvörðurinn Mark Gundelach, hér í harðaspretti ásamt Blikanum Árna Vilhjálmssyni, lagði upp þrjú mörk í dag! Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Nökkvi Þeyr Þórisson kom KA í 2:1 - skoraði í fyrstu sókninni eftir að hann kom inná. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.