Fara í efni
KA

KA-menn búnir að stimpla sig út

Árni Vilhjálmsson kemur Breiðabliki í 2:0 á 55. mínútu. Hvorki Ívar Örn (5) né Rodrigo Gomes (5) ná að stöðva hann og Steinþór Már kom engum vörnum við, þótt hafi haft hönd á knettinum áður en hann fór yfir línuna. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

KA-menn stimpluðu sig í kvöld út úr baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn í knattspyrnu þegar þeir töpuðu 2:0 fyrir Breiðabliksmönnum í annað skipti á fáeinum dögum. Liðin mættust á Akureyrarvelli (Greifavellinum). Með sigrinum fer Breiðablik upp í efsta sæti deildarinnar en þar sem KR vann ÍA á sama tíma fara KA-menn niður í fimmta sæti.

Staða efstu liða - leikir og stig:

  • Breiðablik ... 18   38
  • Valur ............... 18   36
  • Víkingur ....... 18   36
  • KR .................... 18   32
  • KA .................... 18   30
  • FH .................... 18   26

Fyrri hálfleikurinn var bráðskemmtilegur og vel leikinn af báðum liðum, en mjög kaflaskiptur. Það eina sem vantaði voru hættuleg tækifæri. KA-menn byrjuðu af miklum krafti og voru einráðir fyrstu 20 mínúturnar. Héldu boltanum nánast allan þann tíma en ógnuðu marki Blika ekki verulega. Eftir rúmar 20 mínútur urðu valdaskipti á vellinum;  lið Breiðabliks tók við stjórninni og réði lögum og lofum fram að hálfleik en sköpuðu ekki alvöru hættu frekar en fyrri valdhafar.

Seinni hálfleikur var ólíkur þeim fyrri. KA-menn byrjuðu skelfilega því Blikar skoruðu strax á fyrstu mínútu eftir mikinn klaufagang í vörn KA. Kristinn Steindórsson skallaði boltann í markið af stuttu færi. Tíu mínútum síðari skoraði Árni Vilhjálmsson með skoti úr miðjum teignum eftir laglega sendingu frá Kristni. Þar með voru úrslitin nánast ráðin; Blikar léku af yfirvegun og skynsemi, KA-menn urðu að leggja allt í sölurnar, voru töluvert með boltann en náðu aldrei að skapa verulega hættu. Sigur Breiðabliks var sanngjarn og liðið tyllti sér á topp deildarinnar sem fyrr segir. 

Smelltu hér til að sjá leikskýrsluna

Þorri Mar Þórisson liggur í sverðinum um miðjan fyrri hálfleik eftir baráttu við Damir Muminovic. KA-menn vildu víti en það var ekki raunhæf krafa. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Arnar Grétarsson, þjálfari KA, lengst til vinstri, ásamt aðstoðarmönnum sínum, Hallgrími Jónassyni og Steingrími Erni Eiðssyni.

Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfari Breiðabliks gefur sínum mönnum fyrirmæli í kvöld.