Fara í efni
KA

KA mætir Keflavík suður með sjó í dag

Hallgrímur Mar Steingrímsson horfir á eftir boltanum í fyrri leik KA og Keflavíkur í sumar; hann fór ekki í markið frekar en í öðrum tilraunum liðanna þann dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA-menn sækja Keflvíkinga heim í dag í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Leikurinn hefst klukkan 18.00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

KA er í níunda sæti deildarinnar sem stendur með 17 stig úr 14 leikjum en á tvo leiki til góða á liðin í fjórum efstu sætunum og með sigri í báðum kæmist liðið upp í fjórða sæti, einu stigi upp fyrir KR.

KA og Keflavík gerðu markalaust jafntefli á Greifavelli KA í 3. umferð deildarinnar í vor en síðan hafa Keflvíkingar átt erfitt uppdráttar í sumar og eru í neðsta sæti með 10 stig. 

Mikil törn er framundan hjá KA-mönnum. Þeir taka á móti Dundalk frá Írlandi í Sambandsdeild Evrópu á Framvellinum í Reykjavík á fimmtudaginn, fá HK-inga í heimsókn í Bestu deildinni á sunnudaginn og mæta írska liðinu ytra fimmtudaginn 3. ágúst.