Fara í efni
KA

KA klúðraði tveimur vítum og tapaði fyrir Val

Vítamartröð KA heldur fram: Sebastian Brebels þrumar í þverslá úr seinna vítinu sem KA klúðraði í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Ótrúleg vítaspyrnumartröð KA-manna hélt áfram í dag þegar þeir töpuðu 1:0 fyrir Valsmönnum í toppslag Pepsi Max deildarinnar, efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu, á Dalvík. Þeir fengu tvær vítaspyrnur í leiknum og klúðruðu báðum! Gestirnir fengu reyndar líka víti sem þeir nýttu ekki, Steinþór Már Auðunsson – alltaf kallaður Stubbur – varði afar slaka spyrnu Danans Patrick Pedersen.

KA-menn hafa fengið fimm vítaspyrnur í heimaleikjum sumarsins á Dalvík og aðeins nýtt eina! Sú tölfræði er með ólíkinum.

Hannes Halldórsson varði fyrra víti KA í dag, hræðilega lélega spyrnu Jonathan Hendrickx, í lok fyrri hálfleiks, og seint í leiknum, eftir að Valsmenn skoruðu, tók hinn Belginn í KA-liðinu, Sebastian Brebels, vítaspyrnu og þrumaði í þverslá.  

Valsmenn eru því efstir sem fyrr, með 23 stig að loknum 10 leikjum, Víkingar eru með 18 stig eftir átta leiki og KA-menn með 16 stig, einnig eftir átta leiki. Með sigri í dag hefðu þeir aðeins verið einu stigi á eftir Valsmönnum en vinni KA-menn báða leikina sem þeir eiga til góða verða þeir einu stigi á eftir meisturunum.

Leikurinn var býsna jafn þegar á heildina er litið og bráðfjörugur. Stóð undir nafni sem toppslagur. Bæði lið áttu mjög góða kafla, KA-menn voru töluvert sterkari fram í miðjan fyrri hálfleikinn og Elfar Árni Aðalsteinsson skallaði boltann í stöng eftir fyrirgjöf snemma leiks og hinum megin skaut Kristinn Freyr Sigurðsson í stöng skömmu síðar, úr dauðafæri Það var svo á lokaandartökum hálfleiksins að Sebastian Hedlund braut klaufalega á Elfari Árna og Helgi Mikael  Jónasson, góður dómari leiksins, benti á vítapunktinn. Hannes varði frá þá Hendricks eins og áður sagði.

Fjörið hélt áfram í seinni hálfleik. Liðin áttu góða kafla til skiptis og þokkalega færi, fyrir utan vítaspyrnurnar.

Það var Patrick Pedersen sem gerði eina mark leiksins á 77. mín., aðeins tveimur mínútum eftir að hann klúðraði vítinu. Eftir langt innkast barst boltinn að fjærsönginni þar sem Daninn var grunsamlega óvaldaður, lagði boltann fyrir sig og skoraði örugglega. Pedersen hafði haft sig afar lítið í frammi í leiknum, en hann á það ekki síður til í slíkum leikjum að skora; stórhættulegur framherji sem aldrei má líta af.

KA-menn geta aðeins sjálfum sér um kennt að hafa ekki nælt í að minnsta kosti eitt stig í dag. Þeir léku prýðilega á köflum en enginn getur reiknað með að fá eitthvað út úr leik við Íslandsmeistarana þegar tvær vítaspyrnur fara í súginn.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.

75. mínúta - Steinþór Már Auðunsson markvörður KA var vítaspyrnu frá Patrick Pedersen. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

77. mínúta - Patrick Pedersen skorar eina mark leiksins. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.