Fara í efni
KA

KA Íslandsmeistari þriðja árið í röð!

KA birti þessa skemmtilegu mynd af stelpunum á Facebook síðu félagsins eftir að titillinn var í höfn í dag.

Kvennalið KA varð Íslandsmeistari í dag eftir sigur á Aftureldingu í ótrúlegum leik í Mosfellsbæ. Þetta er þriðja árið í röð sem KA-stelpurnar fagna Íslandsmeistaratitli.

KA hafði unnið tvo leiki fyrir daginn en Afturelding einn. Þrjá sigra þarf til að verða meistari þannig að í dag var duga eða drepast fyrir Mosfellinga; þeir urðu að vinna til að knýja fram fimmta leikinn í KA-heimilinu.

Afturelding vann tvær fyrstu hrinurnar en KA-stelpurnar voru ekki á þeim buxunum að kasta inn handklæðinu heldur tvíefldust við mótlætið og viðsnúningurinn verður lengi í minnum hafður.

Fyrsta hrinan hnífjöfn en Afturelding vann eftir upphækkun, 27:25. Mosfellingar sigruðu aftur á móti með yfirburðum í annarri hrinu, 25:15.

Þriðja hrinan var álíka jöfn og sú fyrsta, spennan mikil og þá höfðu KA-stelpurnar betur eftir upphækkun, 27:25. Fjórða hrinan var líka skemmtileg og spennandi og KA vann 25:22.

Í oddahrinunni var spennan hins vegar engin. KA-stelpurnar voru miklu betri, leikmenn Aftureldingar þraut örendið og snemma varð ljóst að Íslandsbikarinn yrði varðveittur í KA-heimilinu þriðja árið í röð. Oddahrinan fór 15:8 fyrir KA.

Til hamingju með Íslandsmeistaratitilinn, KA-stelpur!