Fara í efni
KA

KA í átta liða úrslit eftir sigur á Vestra

KA-menn fagna stórglæsilegu marki Bjarna Aðalsteinssonar í kvöld. Hallgrímur Mar Steingrímsson fagnar markaskorarann, til vinstri er Sveinn Margeir Hauksson og Daníel Hafsteinsson hægra megin. Mynd: akureyri.net

Karlalið KA er komið áfram í átta liða úrslit Mjólkurbikarsins í knattspyrnu eftir 3-1 sigur á Vestra í kvöld á KA-vellinum, Greifavelli. Þrjú mörk á rúmum stundarfjórðungi í seinni hálfleiknum skiluðu heimamönnum áfram í bikarkeppninni. Glæsimark Bjarna Aðalsteinssonar gladdi augað. Mætast Akureyrarliðin í næstu umferð?

KA-menn voru heldur aðgangsharðari í fyrri hálfleiknum og voru nálægt því að skora fyrsta mark leiksins undir lok venjulegs leiktíma í fyrri hálfleik þegar Ívar Örn Árnason skallaði að marki eftir fyrirgjöf Daníel Hafsteinssyni, en Marvin Darri Steinarsson varði vel í marki Vestra. Varnarmenn Vestra höfðu hent sér fyrir flest skot heimamanna þannig að útlit var fyrir markalausan fyrri hálfleik, en gestirnir að vestan voru ekki á þeim buxunum. Á 3. mínútu viðbótartíma fyrri hálfleiks kom eiginlega blaut tuska í andlit heimamanna þegar Benedikt V. Warén tók aukaspyrnu hægra megin utan teigs, sendi fyrir markið þar sem Jeppe Gertzen var mættur á fjærstöngina og stangaði boltann í markið hjá Jajalo. Gestirnir í Vestra með forystu eftir fyrri hálfleikinn.

Það voru svo ekki liðnar nema tæpar þrjár mínútur af seinni hálfleiknum þegar KA-menn jöfnuðu. Það gerði Rodrigo Gomez Mateo, nánast á sama stað og Gertzen skoraði mark Vestra í lok fyrri hálfleiksins. Birgir Baldvinsson átti þá fyrirgjöf frá hægri og Rodri mætti á fjærstöngina og kom boltanum í netið. 

Hans Viktor Guðmundsson skoraði annað mark KA sex mínútum síðar þegar hann skallaði boltann í markið eftir hornspyrnu frá Daníels Hafsteinssonar. Þriðja mark KA kom svo tíu mínútum eftir mark Hans Viktors og var það einkar glæsilegt. Bjarni Aðalsteinsson skoraði þá beint úr aukaspyrnu, vinstra megin, utan teigs upp í markhornið nær. Vestramenn reyndar alls ekki sáttir við aukaspyrnudóminn sjálfan. 

Sigur KA-manna í höfn og þeir komnir áfram í átta liða úrslit Mjólkurbikarsins. Smellið hér til að skoða leikskýrsluna á vef KSÍ.

Akureyrarliðin eru fyrstu tvö liðin sem tryggja sér sæti í átta liða úrslitum, en sex leikir í 16 liða úrslitunum verða spilaðir á morgun og föstudag. Dregið verður í átta liða úrslitin þriðjudaginn 21. maí.

Bjarni Aðalsteinsson með boltann í leiknum í kvöld. Mynd: akureyri.net