Fara í efni
KA

KA í átta liða úrslit bikarkeppninnar

Bruno Bernat, hér í leiknum gegn Stjörnunni í KA-heimilinu á sunnudaginn, lék mjög vel í Garðabænum í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

KA-menn sigruðu Stjörnuna í kvöld, 27:25, í átta liða úrslitum bikarkeppninnar í handbolta í Garðabæ. Þeir eru þar með komnir í átta liða úrslit keppninnar og mæta Haukum á Akureyri næst, en lið Hauka vann Gróttu í kvöld. 

Fyrri hálfleikurinn í Garðabæ var jafn lengst af en Stjarnan ætíð skrefi á undan og þegar skammt var eftir komst hún fjórum mörkum yfir, 13:9. KA gerði svo tvö síðustu mörkin og staðan var því 13:11 í hálfleik.

KA-menn jöfnuðu snemma í seinni hálfleik og komust yfir í fyrsta skipti í leiknum, 16:15, þegar fimm mínútur voru liðnar – markvörðurinn Bruno Bernat skoraði þá yfir endilangan völlinn, sem var vel við hæfi því hann var frábær í leiknum. KA komst svo tveimur mörkum yfir þegar Skarphéðinn Ívar Einarsson stökk upp fyrir utan vörnina og skoraði með þrumufleyg. Staðan 17:15 og Patrekur Jóhannesson Stjörnuþjálfari tók umsvifalaust leikhlé sem skilaði árangri því hans menn gerðu þrjú mörk í röð á skömmum tíma og komust einu marki yfir. Adam var þó ekki lengi í Paradís þeirra Garðbæinga því KA-menn komust fljótlega tveimur mörkum yfir á ný og héldu forystunni til leiksloka.

Það var fyrst og fremst öflug liðsheild sem skóp sigurinn. KA-menn börðust eins og ljón í vörninni en sóknarleikurinn hefur hins vegar oft verið betri. 

  • Benda verður á að besti sóknarmaður KA í vetur, Einar Rafn Eiðsson, var hvorki með í kvöld né á sunnudag vegna meiðsla og munar aldeilis um minna. Ekki er endanlega ljóst hvað hrjáir hann eða hve lengi Einar Rafn verður frá. 
  • Þá var Patrekur Stefánsson mikilvægur meðan hans naut við í kvöld en hann var rekinn út af þegar stundarfjórðungur var eftir, þegar staðan var 19:19, fyrir að hrinda mótherja sem hafði brotið á Patreki – fékk beint rautt spjald.
  • Færeyingurinn Nicholas Satchwell, aðalmarkvörður KA, fékk skot í höfuðið gegn Stjörnunni um helgina og lauk ekki leiknum. Hann var illa fjarri góðu gamni í kvöld en Bruno Bernat greip tækifærið og sýndi hvað í honum býr. 

Mörk KA í kvöld: Patrekur Stefánsson 6, Ólafur Gústafsson 4, Arnar Freyr Ársælsson 3, Arnór Ísak Haddsson 3, Allan Norðberg 3, Óðinn Þór Ríkharðsson 3 (1 víti), Einar Bragi Stefánsson 2, Jón Heiðar Sigurðsson 1, Skarphéðinn Ívar Einarsson 1 og Bruno Bernat 1.

Bruno Bernat varði 18 skot - 42% skota sem hann fékk á sig. Þá varði gamla brýnið Stefán Guðnason eitt skot. Stefán, sem fyrir löngu hefur lagt skóna á hilluna, kom inn í hópinn í stað Satchwells.