Fara í efni
KA

KA í 16 liða úrslit eftir framlengingu

Bruno Bernat markvörður KA. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA-menn komust í 16 liða úrslit bikarkeppninnar í handbolta í gær með 33:32 sigri á Víkingum á heimavelli eftir framlengdan leik. Bruno Bernat, sem lék mjög vel í marki KA, kom í veg fyrir aðra framlengingu þegar hann varði skot á lokasekúndunum.

Miklar sveiflur voru í leiknum. KA komst í 3:0, jafnt var 6:6 en KA gerði sex síðustu mörk fyrir hálfleiksins þannig að staðan að honum loknum var 12:6.

KA komst í 20:13 en Víkingar náðu á ótrúlegan hátt að minnka muninn jafnt og þátt, tveimur mörkum munaði þegar um það bil 10 mínútur voru eftir og jafnt var orðið, 29:29, þegar rúm mínúta var eftir. Þannig lauk hefðbundnum leiktíma.

KA gerði tvö mörk í fyrri hluta framlengingar en gestirnir ekkert; staðan 31:29. Í seinni hálfleik gerðu Víkingar þrjú mörk en KA-menn tvö og unnu þar með eins marks sigur sem fyrr segir. Dregið verður í 16 liða úrslitunum á morgun.

Mörk KA: Otto Varik 8, Jóhann Geir Sævarsson 8, Einar Rafn Eiðsson 5 (4 víti), Skarphéðinn Ívar Einarsson 4, Einar Birgir Stefánsson 3, Patrekur Stefánsson 3, Jens Bragi Bergþórsson 2.

Varin skot: Bruno Bernat 20 (43,5%), Nicolai Horntvedt Kristensen 1 (14,3%)

Smellið hér til að sjá alla tölfræði á vef HSÍ