Fara í efni
KA

KA - HK – viltu mynd af þér við bikarinn?

KA-menn fagna bikarmeistaratitlinum á Laugardalsvelli síðasta laugardag. Mynd: Skapti Hallgrímsson

KA-menn, nýbakaðir bikarmeistarar í knattspyrnu, fá lið HK í heimsókn í dag í neðri hluta Bestu deildar karla í knattspyrnu. Vakin er athygli á óvenjulegum leiktíma; flautað verður til leiks á Greifavellinum kl. 16.15.

KA-menn eru án efa enn í sjöunda himni, allir sem einn, eftir sigurinn í bikarkeppninni á laugardaginn. Liðið sigraði ríkjandi Íslands- og bikarmeistara á sannfærandi hátt á Laugardalsvelli og ætti því að vera vel stemmt í dag.

Á miðlum KA er vakin athygli á því að fólki gefst tækifæri til að fá mynd af sér með bikarnum fyrir leik, frá kl. 15.30, og aftur í hálfleik. „Hvetjum ykkur eindregið til að nýta tækifærið enda eigum við öll hlut í þessum stórkostlega áfanga!“ segir þar.

KA er í góðri stöðu í neðri hlutanum, þremur stigum á eftir Fram sem er efst í þeirra sex liða sem þar etja kappi. KA á leik til góða og kemst því upp að hlið Fram með sigri. Liðið er í góðri stöðu, átta stigum frá fallsæti, en HK er aðeins einu stigi frá fallsæti og leikurinn því afar mikilvægur Kópavogsliðið.