Fara í efni
KA

„KA hefur alltaf verið þekkt fyrir liðsheild“

Amelía Ýr Sigurðardóttir, varafyrirliði bikarmeistara KA, og Lovísa Rut Aðalsteinsdóttir, aðalfyrirliði. Mynd: Skapti Hallgrímsson

„Það er eiginlega skemmtilegra að vinna svona langa leiki!“ sagði Lovísa Rut Aðalsteinsdóttir, aðalfyrirliði bikarmeistaraliðs KA í blaki við Akureyri.net, spurð um úrslitaleikinn á laugardag, þar sem KA vann HK í fimm hrinu leik, 3:2. Eftir á að hyggja, og fyrst svona fór, sé óhætt að segja það!

Kvennalið KA er mun betra en HK skv. stöðutöflu Unbrokendeildar Íslandsmótsins og því kom alls ekki á óvart að KA-stelpurnar unnu fyrstu tvær hrinurnar. Þrjár þarf til að vinna leikinn, útlitið var því sannarlega gott en HK kom á óvart og vann tvær næstu hrinur. Því þurfti að grípa til þeirrar fimmtu, oddahrinu, og með sigri í henni tryggðu KA-konur sér bikarinn.

„Óþarflega stressaðar“

Lovísa Rut segir það hafa verið mjög góða tilfinningu þegar sigur í tveimur fyrstu hrinunum voru í höfn. „Mér fannst að þetta væri nánast komið þegar staðan var orðin 2:0, það er ekki hægt að ljúga því,“ sagði fyrirliðinn. „En við byrjuðum alls ekki vel í þriðju hrinunni, náðum okkar reyndar aftur á strik um tíma en náðum samt aldrei að koma okkur nógu vel inn í leikinn. Við gerðum alls konar mistök og vorum óþarflega stressaðar.“

Eftir að fjórða hrinan hófst segir Lovísa að ósjálfrátt hafi þeirri hugsun skotið upp í kollinn, einhverra hluta vegna, að hugsanlega yrði að spila oddahrinu, þá fimmtu, og það kunni ekki góðri lukku að stýra að velta þannig vöngum. „Maður fer að hugsa um að oddahrinan verði stressandi, þá þarf bara að fá 15 stig til að vinna, þannig að alls ekki megi byrja illa ... “

Þannig fór að HK vann fjórðu hrinuna líka og oddahrina var því staðreynd. „Við byrjuðum sem betur fer mjög vel í oddahrinunni og það skilaði sigrinum. Þegar það gekk vel í byrjun hrinunnar fékk maður strax góða tilfinningu og þá rúllaði allt vel.“

HK frábært varnarlið

Lovísa viðurkenndi, eins og fram kom í upphafi, að skemmtilegra væri að vinna langa leiki en stutta. „Við unnum HK 3:0 í bikarúrslitaleiknum fyrir tveimur árum og það var ekki eins skemmtilegt og að vinna núna, hvorki fyrir okkur né áhorfendur. Það getur samt verið erfitt að fara í oddahrinu, og auðvitað hræðilegt að tapa henni.“

KA er mun betra lið en HK skv. stöðutöflu Unbrokendeildar Íslandsmótsins en skipti það máli fyrir úrslitaleikinn? Við hverju bjuggust KA-stelpurnar?

„Við vorum nýbúnar að spila við þær og planið var því alveg klárt. Við einbeittum okkur bara að því hvað við ætluðum að gera og vissum að ef við næðum að spila eins og við ætluðum þá ættum við vinna,“ segir Lovísa en bætir við að ekki megi gleyma því að HK sé með frábært varnarlið. „Það komst inn í hausinn á okkur; við erum vanar að smassa og fá stig eftir stig eftir stig en gegn þeim var það erfiðara og þá er mikilvægt að vera samt rólegar, bíða eftir réttu tækifæri og klára svo dæmið.“

Aldrei neitt drama

Þegar Lovísa er spurð hvort velgengni KA-liðsins megi þakka einhverju sérstöku, nefnir hún fyrst samheldni leikmanna. „Við peppum hver aðra alltaf vel upp; um leið og einhver dettur aðeins niður á vellinum átta hinar sig á því og stíga upp.“ Liðsheildin sé mjög góð: „KA hefur alltaf verið þekkt fyrir liðsheild, það er aldrei neitt vesen eða drama hjá okkur.“

Lovísa segir einnig skipta verulegu máli að leikmannahópurinn sé stór og breiddin mikil. Nefnir m.a. nokkrar ungar en bráðefnilegar stúlkur. „Sóldís [Júlía Sigurpálsdóttir] kom til dæmis inn og spilaði rosalega vel í undanúrslitaleiknum á föstudaginn og var klárlega maður leiksins. Þá kemur Anika [Snædís Gautadóttir] oft inná og skiptir við mig í uppgjöfum. Þær eru ungar en mjög rólegur og standa sig vel. Í úrslitaleiknum var Sóldís til dæmis í fyrsta skipti í byrjunarliði í stöðu kantmanns; það gerist ekki stærra að byrja þar í fyrsta skipti í úrslitaleik!“

Þá nefnir Lovísa Auði Pétursdóttur, enn eina efnilegu stúlkuna, og í sömu andrá Paula del Olmo, samherja sinn og eiginkonu Mateo þjálfara. Þau hafa bæði unnið frábært starf fyrir blakdeild KA. „Paula hefur til dæmi alið bæði Aniku og Auði algjörlega upp sem blakara. Hún hefur þjálfað þær síðan þær byrjuðu í blaki,“ segir Lovísa.

Síðast en ekki síst talar Lovísa um þjálfarann, Miguel Mateo Castrillo. „Hann er alveg frábær. Ótrúlegur maður. Á föstudeginum, þegar vitað var að bæði liðin myndu leika til úrslita, þurfti hann að fá tíma til að vera einn í pottinum! Hann hefur þurft margt að hugsa og ekki víst að hann hafi sofið eitthvað um nóttina!“