Fara í efni
KA

KA glímir við FH heima, Þór við Vængina syðra

Patrekur Stefánsson fagnar marki gegn FH síðasta vetur - FH-ingurinn er Einar Rafn Eiðsson, sem leikur með KA í vetur en er meiddur um þessar mundir. Til hægri: Aðalsteinn Ernir Bergþórsson, Þórsari, og FH-ingurinn Gytis Smantauskas í bikarleik liðanna í vikunni. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

KA-menn taka á móti FH-ingum í efstu deild Íslandsmótsins í handbolta, Olísdeildinni, í kvöld. Tvö afar dýrmæt stig eru í boði því KA er í harðri baráttu um að komast inn í úrslitakeppni átta efstu liða.

KA sigraði í viðureign liðanna í KA-heimilinu seint á síðasta keppnistímabili, 30:29, en FH-ingar unnu fyrri leik liðanna í vetur í Hafnarfirði, 29:21.

KA er sem stendur í áttunda sætinu með 15 stig, Afturelding er næst fyrir ofan með 17 og bæði Stjarnan og Selfoss eru með 18 stig. Fram er í næsta sæti neðan við KA með 14 stig. Baráttan verður því væntanlega í algleymingi allt til síðustu umferðar.

KA og Afturelding hafa lokið 16 leikjum, Stjarnan, Selfoss og Fram 17 leikjum.

Eftir leikina í kvöld eiga KA-menn þessa leiki eftir:

  • Heima – Afturelding og Selfoss
  • Úti – Fram, Haukar, Grótta

Leikur KA og FH hefst klukkan 18.00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Þórsarar verða líka í eldlínunni í kvöld, í næst efstu deild, Grill66 deildinni. Þeir mæta Vængjum Júpíters í Dalhúsum í Grafarvogi og hefst leikurinn klukkan 20.15. Þetta verður fyrsti deildarleikur Þórsara í heilan mánuð – síðast mættu þeir ungmennaliði Aftureldingar 4. febrúar í Mosfellsbæ og unnu stóran sigur.

ÍR er efst í deildinni með 26 stig (eftir 16 leiki), Fjölnir er með 24 (15), Hörður 22 (14) og Þór er í fjórða sæti með 18 stig að loknum 12 leikjum.

Fjórum leikjum Þórsara hefur verið frestað á síðustu vikum vegna Covid. Þeir eiga því sjö leiki eftir að lokinni viðureigninni í kvöld:

  • Heima – ÍR, Fjölnir, Selfoss U
  • Úti – Haukar U, Kórdrengir, Valur U, Hörður