Fara í efni
KA

KA getur tryggt sér sæti í úrslitakeppninni

Jónatan Magnússon, þjálfari KA, og hans menn geta tryggt sér sæti í úrslitakeppninni í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

KA og FH mætast í Olísdeild Íslandsmóts karla í handbolta í KA-heimilinu í dag. Að honum loknum hafa öll lið deildarinnar lokið 20 leikjum og eiga þar með tvo eftir.

KA-menn eru í áttunda sæti en með sigri í dag stökkva þeir upp í 3. til 4. sæti, að hlið Selfyssinga, og tryggja sér þar með sæti í átta liða úrslitakeppni um Íslandsmeistaratitilinn. Jafntefli í kvöld dugar raunar til þess en því ofar sem lið verða í deildinni, því betra; fjögur efstu liðin eiga heimaleikjarétt, sem kallaður er; það lið sem er ofar í deildinni á heimaleik fyrst í úrslitarimmu og komi til oddaleiks fer hann fram á heimavelli þess liðs sem var ofar í töflunni við lok deildarkeppninnar.

Hvernig sem fer í kvöld verða FH-ingar áfram í öðru sæti deildarinnar, þeir eru með 26 stig, tveimur meira en Selfyssingar en níu minna en Haukar, sem eru þegar orðnir deildarmeistarar.

Leikurinn í dag hefst klukkan 18.00 og verður sýndur beint á sjónvarpsrás KA. Smellið hér til að horfa.

Miðasala fer fram í Stubbsappinu. Áhorfendum verður skipt á tvö svæði, A og B svæði; ársmiðahafar mæta á A-svæði en stakir miðar eru til sölu í bæði svæðin í Stubbsappinu. Gengið er inn á svæði A um aðalinngang KA-heimilisins en inn á svæði B í gegnum rampinn við íþróttasalinn.