Fara í efni
KA

KA getur keppt um titilinn – MYNDBAND

Hallgrímur Jónasson þjálfari knattspyrnuliðs KA. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Hallgrímur Jónasson þjálfari knattspyrnuliðs KA er bjartsýnn fyrir sumarið. „Ég vil meina að ef allt gengur upp getum við keppt um [Íslandsmeistara]titilinn,“ segir hann við Akureyri.net í dag.

Íslandsmótið, sá ljúfi vorboði í huga margra, hefst klukkan 14.00 á morgun, sunnudag, þegar flautað verður til tveggja leikja í Bestu deild karla. Annar þeirra er viðureign KA og KR á Greifavellinum nýja á svæði félagsins við Dalsbraut. Síðar um daginn eru hinir fjórar leikir fyrstu umferðar á dagskrá.

Danskur í hugsun!

Víða er komið við í viðtalinu. Hallgrímur ræðir um það hve KA-liðið hafi styrkst og þroskast á undanförnum árum, ekki síst andlega, hann lýsir ánægju með þá leikmenn sem gengu til liðs við KA í vetur, og lýsir því hvernig hann vill að liði spili, svo dæmi séu tekin.

Hallgrímur lék undir stjórn margra þjálfara á sínum tíma og segist alltaf hafa reynt að tileinka sér eitthvað af öllum.

„Ég er svolítið danskur í hugsun enda spilaði ég þar í sjö og hálft ár. Þar er tekin meiri áhætta en á Íslandi, spilaður jákvæðari fótbolti en það er að breytast hér, sem betur fer. Það er orðið meira um að lið vilji stjórna leikjum.“ Hallgrímur vill einmitt að lið sitt sé mikið með boltann og stjórni leikjum, hann vilji hefja sóknir með því að spila út úr vörninni en ekki þruma boltanum fram völlinn og vona það besta.

Hallgrímur var aðstoðarþjálfari Arnars Grétarssonar hjá KA og tók við sem aðalþjálfari þegar Arnar hætti síðsumars í fyrra og stjórnaði liðinu á lokakafla Íslandsmótsins. Hann byrjar því ekki á núlli, eins og hann orðar það, og nefnir að þeir Arnar hafi svipaða sýn á fótbolta þannig að það sem KA -liðið leggi áherslu á nú sé ekki ósvipað því sem gert hefur verið síðastliðin tvö ár þótt vissulega fylgi nýjum aðalþjálfara einhverjar áherslubreytingar.

Breiðari hópur en í fyrra

Flestir fjölmiðlar spá KA 4. sæti í deildinni í sumar og Hallgrímur telur það mjög eðlilegt því KA-menn telji sig eiga heima í hópi fjögurra bestu. „Hlutirnir gengu upp í fyrra og við enduðum í 2. sæti og ég vil meina að við séum með betri hóp en í fyrra – breiðari hóp,“ segir þjálfarinn.

„Ég vil meina að ef allt gengur upp getum við keppt um [Íslandsmeistara]titilinn,“ segir Hallgrímur. Mjög gott yrði fyrir KA að vera í einu af fjórum efstu sætunum, segir hann, og lýsir þeirra skoðun sinni að deildin verði jafnari í ár en áður. „Það eru fleiri góð lið en áður og lið sem getur lent í topp fjórum getur unnið deildina en gæti líka endað í 6. eða 7. sæti ef hlutirnir ganga ekki alveg upp.“

Smellið hér til að sjá og heyra allt viðtalið við Hallgrím Jónasson.