Fara í efni
KA

KA gæti komist í 3. sæti með sigri í kvöld

KA-menn fagna sigri á Þórsurum í síðasta deildarleik. Ljósmynd: Þórir Tryggvason.

KA-menn gætu komist upp í þriðja sæti Olísdeildar Íslandsmótsins í handbolta með sigri á Haukum í KA-heimilinu í kvöld. Um er að ræða frestaðan leik, 11. leik beggja. KA sigraði Þór í síðasta deildarleik og Haukar lögðu ÍR-inga, en lentu í mjög miklu og óvæntu basli með botnliðið. Því verður afar fróðlegt að sjá viðureignina í kvöld.

Haukar eru efstir í deildinni með 17 stig eftir 10 leiki, FH með 16, Valur og Afturelding 13 og Stjarnan 12, öll eftir 11 leiki og KA hefur einnig 12 stig, eftir 10 leiki.

Ólafur Gústafsson hefur ekki tekið þátt í síðustu tveimur leikjum KA vegna meiðsla, en hefur þó verið í leikmannahópnum. Ekki er loku fyrir það skotið að hann geti spilað í kvöld. Aðrir eru heilir heilsu eftir því sem næst verður komist. Svo er einnig hjá toppliðinu nema hvað Þórsarinn Geir Guðmundsson slasaðist í síðasta leik og verður varla með; eftir höfuðhögg fékk Geir heilahristing og tönn brotnaði. Hann var fluttur með sjúkrabíl til skoðunar á sjúkrahúsi en fékk að fara heim að því loknu.

Flautað verður til leiks í KA-heimilinu klukkan 19.30. Samkvæmt nýrri reglugerð heilbrigðisráðuneytisins verður nú heimilt að hleypa áhorfendum á íþróttakappleiki að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, allt að 200 manns, en þó ekki fyrr en endanleg útfærsla verður tilbúin. Ekki er víst að það verði fyrir kvöldið en Akureyri.net mun að sjálfsögðu greina frá því um leið og málið skýrist.