Fara í efni
KA

KA fær Alex Frey að láni og Jakob framlengir

Alex Freyr Elísson, til vinstri, og Jakob Snær Árnason. Ljósmyndir: Hafliði Breiðfjörð og Skapti Hallgrímsson
Knattspyrnudeild KA hefur fengið bakvörðinn Alex Frey Elísson að láni út leiktíðina. Bæði fotbolti.net og 433.is greindu frá þessu í gærkvöldi en félögin hafa ekki tilkynnt um vistaskiptin.
 
Leikmaðurinn staðfestir tíðindin í samtali við 433.is: „Ég er bara virkilega spenntur, þetta er góð lending,“ segir hann. „Ég get ekki beðið eftir því að fá að spila aftur og finna ástríðuna fyrir fótboltanum.“ 
 

Alex Freyr gekk í raðir Íslandsmeistara Blika frá Fram í vetur en hefur ekki tekist að brjóta sér leið inn í byrjunarliðið. Hann leikur oftast sem bakvörður hægra megin í vörninni en getur einnig leikið vinstra megin, eins og bæði Þorri Mar Þórisson og Hrannar Már Steingrímsson. Fram kemur í fréttum beggja miðlanna að bakvörðurinn Birgir Baldvinsson verði ekki með KA allt keppnistímabilið því hann sé á leið til Bandaríkjanna í háskólanám.

Af leikmannamálum er það að öðru leyti helst að frétta að Jakob Snær Árnason hefur framlengt samning sinn við KA. Hann er nú samningsbundinn félaginu út sumarið 2026. KA tilkynnti þetta á heimasíðu félagsins á dögunum.