Fara í efni
KA

KA bikarmeistari eftir frábæran úrslitaleik

Bikarmeistararnir sigri hrósandi eftir leikinn í dag ásamt dyggum stuðningsmönnum í Digranesi. Mynd af Facebook síðu KA.

Kvennalið KA varð bikarmeistari í blaki í dag eftir frábæran og æsispennandi úrslitaleik við Aftureldingu í Digranesi. Vinna þarf þrjár hrinur til þess að sigra í leik og hrinurnar urðu fimm að þessu sinni.

  • Afturelding - KA: 25:19 – 21:25 – 25:23 – 21:25 –11:15

Eins og sést á tölunum munaði aldrei miklu; Afturelding vann fyrstu hrinu reyndar býsna örugglega eftir að KA hafði haft yfirhöndina framan  af og sigur KA í annarri hrinu var sannfærandi. Þriðja hrinan var æsispennandi frá upphafi til enda, KA komst í 20:16 en leikmenn Aftureldingar tóku magnað endasprett og sigruðu.

Í fjórðu hrinu var að duga eða drepast fyrir KA-stelpurnar. Þær byrjuðu betur, leikmenn Aftureldingar voru þó að sjálfsögðu ekki á þeim buxunum að gefast upp og minnkuðu muninn í eitt stig, 17:16, en Akureyringarnir skiptu í efsta gír á lokakaflanum og unnu.

Staðan því 2:2 og oddahrinu þurfti til að skera úr um hvort liði hampaði bikarnum eftirsótta. Í oddahrinu er aðeins leikið upp í 15, hrinan var jöfn á fyrstu mínútunum en með frábærum kafla, þegar þær skoruðu fimm stig í röð, lögðu KA-stelpurnar grunninn að sigrinum.

Bæði lið léku frábærlega í dag og leikurinn var stórskemmtilegur. Tea Andric lék gríðarlega vel í KA-liðinu og gerði 28 stig og Paula Del Olmo gerði 22. Þá lék Valdís Kapitola Þorvarðardóttir einnig einstaklega vel og var valin maður leiksins.

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina