Fara í efni
KA

KA auðveldlega í 16 liða úrslitin

Jakob Snær Árnason skorar fyrsta markið á nýja vellinum, með hnitmiðuðu skoti rétt utan teigs í fjærhornið. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA lagði Reyni frá Sandgerði örugglega að velli í dag, 4:1, í 32 liða úrslitum bikarkeppninnar í knattspyrnu, Mjólkurbikarkeppninnar. Þetta var fyrsti leikurinn nýjum gervigrasvelli á KA-svæðinu.

Sigurinn var öruggur enda leika Reynismenn í 2. deild Íslandsmótsins, þeirri þriðju efstu, og eru þar í næst neðsta sæti.

KA gerði fyrsta markið eftir kortér en öllum á óvart jafnaði Reynir skömmu síðar. Fór þá án efa um einhverja á áhorfendapöllum og enn var jafnt í hálfleik. KA-menn stjórnuðu svo ferðinni í seinni hálfleik, keyrðu upp hraðann, og gerðu þrjú mörk til viðbótar.

1:0 Það var Jakob Snær Árnason sem gerði fyrsta markið á vellinum; hnitmiðað skot Jakobs með vinstra fæti frá vítateigslínu fór í hornið fjær. Þetta var á 15. mínútu.

1:1 Reynir fékk aukaspyrnu á ákjósanlegum stað. Zoran Plazonic sendi boltann inn á teig og Elton Renato Livramento Barros skallaði glæsilega í markið, á 24. mínútu.

2:1 Steinþór Freyr Þorsteinsson skaut á markið, boltinn virtist hafa viðkomu í nokkrum Reynismönnum en í netið fór hann! þetta var á 56. mínútu.

3:1 Þorri Mar Þórisson komst inn fyrir vörn Reynismanna eftir sendingu Elfars Árna Aðalsteinssonar og skoraði á 60. mínútu. Leikmenn Reynis kröfðust þess að dæmd yrði rangstaða en hvorki Sveinn dómari né aðstoðardómarinn voru sama sinnis.

4:1 Hallgrímur Mar Steingrímsson gulltryggði sigurinn á 88. mínútu með frábæru skoti. 

Arnar Grétarsson þjálfari KA breytti liðinu töluvert frá síðasta deildarleik; Kristijan Jajalo stóð í markinu í fyrsta skipti í sumar, Hallgrímur Jónasson lék sömuleiðis í fyrsta sinn á tímabilinu og vinstri bakvörðurinn Kári Gautason var í byrjunarliðinu í fyrsta skipti í sumar.

Vert er að geta þess að tveir ungir strákar fengu tækifæri í KA-liðinu síðustu 10 mínúturnar; Valdimar Logi Sævarsson, nýorðinn 16 ára, og Mikael Breki Þórðarson, sem fagnaði 15 ára afmælinu í febrúar.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.

Dómaratríóið og fyrirliðarnir fyrir fyrsta leikinn á vellinum. Frá vinstri: Elfar Árni Aðalsteinsson, KA, Eðvarð Eðvarðsson, Sveinn Arnarsson, Sveinn Þórður Þórðarson og Benedikt Jónsson, Reyni. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.