KA
KA án Brkovic – áritun fékkst ekki í tíma
19.07.2023 kl. 21:50
Varnarmaðurinn Dusan Brkovic verður fjarri góðu gamni á morgun, í síðari viðureign KA og velska liðsins Connah's Quay Nomads í fyrstu umferð undankeppni Sambandsdeildar Evrópu í knattspyrnu.
Brkovic tók ekki þátt í fyrri leiknum í síðustu viku á Framvellinum í Reykjavík vegna meiðsla. Serbinn er hins vegar orðinn heill heilsu en gat ekki ferðast utan með félögum sínum í KA þar sem ekki fékkst vegabréfsáritun tímanlega fyrir hann til Englands.
„Við unnum fyrri leikinn án Dusans en hann er byrjunarliðsmaður og með reynslu úr Evrópuleikjum þannig að þetta er auðvitað svekkjandi, ekki síst fyrir hann. En svona er staðan bara og við gerum það besta úr þessu,“ sagði Hallgrímur Jónasson þjálfari KA við Akureyri.net í kvöld.