Fara í efni
KA

KA af stað á ný – Ólafur Gústafsson loksins með

Ólafur Gústafsson mætir loks til leiks á ný í dag með KA. Hann hefur ekkert komið við sögu í vetur. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Efsta deild Íslandsmóts karla í handbolta, Olís deildin, er loks komin af stað á ný eftir langt HM hlé. Átta vikur eru síðan KA lék síðast á heimavelli og í dag fá KA-strákarnir „fjölþjóðalið“ Harðar frá Ísafirði í heimsókn.

Þær gleðifregnir bárust úr herbúðum KA í vikunni að Ólafur Gústafsson verði með í dag, en hann hefur verið fjarri góðu gamni í allan vetur eftir aðgerð í haust. 

Leikurinn í KA-heimilinu hefst kl. 15.00 og er aðgangur ókeypis í dag í boði Slippsins og Bílaleigu Akureyrar.

Átta efstu liðin komast í úrslitakeppnina, KA er nú í 10. sæti með níu stig og þar fyrir ofan er Grótta er með 11 stig og bæði Haukar og Selfoss  með 13. Hörður er í 12. og neðsta sæti með aðeins eitt stig.

„Þetta verður gríðarlega athyglisverður leikur, bæði krefjandi fyrir okkur og ekki síður mikilvægur,“ segir Jónatan Magnússon, þjálfari KA.

Hörður hefur bætt við sig þremur nýjum leikmönnum í janúar, Rússa, Frakka, og Írana, sem væntanlega eiga eftir að styrkja liðið en fyrir er fjöldi erlendra leikmanna.

„Biðin hefur verið löng og óhætt að segja að löngum undirbúningi sé loks að ljúka. Ég vona að við séum klárir til að byrja af krafti í Olísdeildinni og svo er ekki langt í leikinn við Aftureldingu í átta liða úrslitum bikarkeppninnar,“ segir Jónatan.

„Við vonumst til þess að fylla KA-heimilið strax í fyrsta leik, og stólum á að KA-fólk mæti og verði með okkur í baráttunni. Einar Birgir Stefánsson er ennþá meiddur, en Óli G er klár og mun án vafa hjálpa okkur bæði varnar og sóknarlega.“